„Stofnun netmiðilsins Kjarnan var að mörgu leyti galin hugmynd,“ skrifar Þórður Snær Júlíuisson, ritstjóri netmiðilsins Kjarnans. Í leiðara blaðsins í dag segir hann stofnkostnaðinn hafa numið fimm milljónum króna. Og ekki voru keppinautarnir neinir smádvergar. Á sama tíma segir hann miklar breytingar hafa orðið á fjölmiðlamarkaðnum. Kjarninn fagnar eins árs afmæli í dag.

Þórður skrifar:

„Fimm menn með fimm milljónir króna að fara með frímiðil í samkeppni á einum mesta fákeppnismarkaði sem fyrirfinnst á Íslandi, þar sem tvö fyrirtæki – 365 og RÚV – liggja eins og strandreka og ofaldir hvalir í mjög lítilli auglýsingatekjutjörn, með nýtt útgáfuform og ritstjórnarstefnu sem var alltaf að fara að stuða einhvern áhrifamikil öfl í hinu litla og tengda íslenska samfélagi.“

Áskrifendum fækkar

Þá heldur hann áfram og telur upp að eftirlitsstofnanir hafi sakað Kjarnann um að brjóta gegn almennum hegningarlögum. Það hafi slitastjórnir líka gert og stjórnmálamenn, álitsgjafar og aðrir sem sjái „heiminn einungis í tveimur pólitískum litum - og skiptir öllu í liðin „við“ og „hinir“ - hafi ítrekað sakað þá sem að Kjarnanum komi um að ganga alls kyns erinda.

Þórður telur jafnframt upp að flestar þær breytingar sem stofnendur Kjarnans hafi séð fyrir hafi raungerst og fjölmiðlanotkun þróast í þá átt sem þeir hafi talið hana vera að fara. Þannig hafi lestur Morgunblaðsins farið úr 42% undir 30% á rúmum fimm árum, Fréttablaðið, sem sé sett óumbeðið í 90 þúsund póstkassa á hverjum degi og urðað á kostnað skattgreiðenda, farið úr 77,5% í um 62-63% í aldurshópnum 18-49 ára frá því í apríl 2010 og áskriftum að Stöð 2 fækkað 45,1% heimila árið 2007 í 29,4% í fyrrahaust.