Tvö tilboð bárust í boranir á Hellisheiði og Hengilssvæðinu sem opnað var í gær. Tilboðin eru frá Jarðborunum hf. að upphæð tæplega 7,8 milljarðar króna og frá ÍAV/Ístak að rúmlega 8,3 milljarðar króna. Kostnaðaráætlun ráðgjafa Orkuveitu Reykjavíkur nam tæplega 10 milljörðum króna. "Þetta er gríðarlega mikilvægt upp á framtíðina," sagði Bent S. Einarsson, forstjóri Jarðborana, í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag.

Bent sagði þegar haft var sambandi við hann eftir útboðið að hann reiknaði með að gengið yrði til samninga við þá á grundvelli útboðsins. Bent sagðist gera ráð fyrir að Jarðboranir þyrftu að ráðast í fjárfestingar vegna útboðsins. "Það liggur fyrir að ráðist verður í kaup á nýjum bor í framhaldi af undirritun samnings," sagði Bent.

Þetta verk er langmesta einstaka borverkefni, sem ráðist hefur verið í hérlendis og stærsta útboð Orkuveitunnar til þessa. Um er að ræða 30 háhitaholur, bæði rannsóknarholur og vinnsluholur, 10 niðurrennslisholur, fimm holur til þess að afla ferskvatns og 13 svelgholur. Á Stóra- Skarðsmýrarfjalli er fyrirhugað að bora 15-20 háhitaholur en vegna þess, að borsvæðið er í um 550 metra hæð yfir sjó er ekki hægt að reikna með nema 5-6 mánaða framkvæmdatíma á ári. Önnur borsvæði eru á Ölkelduhálsi, í Hverahlíð, á núverandi gufuöflunarsvæði virkjana og annars staðar á Hellisheiði/Hengilssvæði fyrir rannsóknarholur.

Samningurinn sem hér um ræðir er til fjögurra ára en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru ákvæði í honum sem gefa kost á framlengingu hans til fimm eða sex ára.