„Ég held að það sé þörf á fleiri leiðtogum sem vilja leiða, sögunnar vegna, en ekki til að ná endurkjöri,“ segir Dominic Barton, forstjóri McKinsey & Company í samtali við Viðskiptablaðið. Hann hélt erindi í Háskólabíói klukkan 12 í dag í tilefni af aldarafmæli Viðskiptaráðs Íslands.

Barton segir miklar áskoranir fram undan sem heimurinn þurfi að búa sig undir. „Það er að verða gífurleg breyting á valdajafnvæginu í heiminum í átt að Asíu. Við erum að sumu leyti enn á upphafsstigum þessar þróunar. Á næstu fimmtán árum munu 2,4 milljarðar bætast inn í millistétt heimsins, aðallega í Asíu en einnig í Afríku. Þetta felur í sér mikil vaxtartækifæri en hefur einnig miklar afleiðingar fyrir landbúnað, nýtingu auðlinda, tækniþró­ un og heilbrigðiskerfi landa.

Það sem skiptir jafnvel meira máli er tæknibyltingin sem er að breyta öllum fyrirtækjum í tæknifyrirtæki. Svo eru íbúar heimsins einnig að eldast, að Afríku og Indlandi undanskildum.“

Vegna þessara breytinga sé þörf á leiðtogum, bæði meðal fyrirtækja og í stjórnmálum sem tilbúnir til að taka djarfar ákvarðanir, jafnvel þótt það þýði að þeir tapi starfinu. Fjölmörg störf muni hverfa á næstu árum vegna tæknibyltingarinnar sem nú gengur yfir og fyrirtæki verði þar að axla aukna ábyrgð. „Við þurfum á víðtækara öryggisneti að halda og geta boðið þeim sem missa vinnuna tækifæri til að mennta sig á nýju sviði. Ég held að fyrirtæki muni þurfa að taka aukinn þátt í því. Þau geta ekki bara gert ráð fyrir því að stjórnvöld muni grípa inn í og bjarga málunum.“

Þá nefnir Barton Gerhard Schröder, sem var kanslari Þýskalands frá árinu 1998 þar til hann tapaði í kosningum árið 2005. „Hann kom í gegn breytingum á vinnumarkaðnum í Þýskalandi, sem varð til þess að vinnumarkaðurinn varð mun sveigjanlegri og ég tel að hafi spilað lykilhlutverk í því hversu vel hefur gengið í Þýskalandi. En breytingarnar kostuðu hann starfið. Ég hef hitt hann nokkrum sinnum og hef þakkað honum fyrir það sem hann gerði,“ segir Barton. „Ég sagði honum að þó það kunni ekki að hljóma þannig núna að þá yrði hans minnst í sögunni sem stjórnmálamanns sem breytti rétt.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .