Jens Garðar Helgason formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kallar eftir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækki stýrivexti verulega. Segir hann áhrifin af sterkri krónu og lækkandi fiskverði séu farinn að valda sjávarútvegsfyrirtækjum miklum rekstrarvandræðum. Þetta kemur fram í frétt Rúv

Segir Jens að gengi krónunnar hafi mikil áhrif á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja og að framlegðin af rekstrinum sé orðin lítil sem engin. Þá séu það sérstaklega fyrirtæki sem eru með minni rekstrareiningar og háan fastan kostnað í íslenskum krónum sem eru í vandræðum. Hann segist einnig hafa heyrt af því að það sé orðið erfiðara að manna skip og þá helst ísfisktogara og línuskip.

Jens kennir vaxtastefnu Seðlabankans um ástandið og segir að skjótvirkasta leiðin til að laga stöðuna sé að lækka vexti. Segir hann að hingað sæki erlendir fjárfestar í vaxtamunaviðskipti og það styrki krónuna, auk þess sem lítil hvati sé til staðar fyrir innlenda fjárfesta að leita út fyrir landsteinanna meðan þeir njóti mun betri ávöxtunar hér heima.