Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur kallað bandaríska sendiherrann í Frakklandi á fund sinn vegna gagna sem birtust í gær um að bandarísk stjórnvöld hefðu hlerað síma Frakklandsforseta á árunum 2006 til 2012. Wall Street Journal greinir frá þessu.

Hollande segir að hinar meintu njósnir séu óásættanlegar og krefst upplýsinga frá sendiherranum um þær. „Frakkland mun ekki sætta sig við athafnir sem ógna öryggi landsins,“ sagði forsetinn meðal annars.

Í gögnum Wikileaks kemur fram að NSA, þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, hafi hlerað símtöl Hollande og forsetanna fyrrverandi Nicolas Sarkozy og Jacques Chirac.

Eftir að gögnin voru birt sendi Hvíta húsið í Bandaríkjunum frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að engar njósnir stæðu nú yfir gegn Hollande, en því var hins vegar ekki neitað að slíkar njósnir hefðu áður átt sér stað.