Tilkoma nýrra orkugjafa í verulegum mæli í samgöngum á landi og í fiskveiðum getur krafist töluverðrar uppbyggingar innviða. Má þar nefna útbúnað til hleðslu rafbíla hvort sem er í heimahúsum, við verslanir og fyrir hleðslu skipa á rafmagni í höfnum. Að auki getur þurft sérhæfða innviðafjárfestingu fyrir sölu á endurnýjanlegu eldsneyti auk þess sem hið endurnýjanlega eldsneyti getur verið dýrara í innkaupum samanborið við hið hefðbundna eldsneyti.

Kemur þetta fram í nýrri skýrslu Orkustofnunar um eldsneytisnotkun á árunum 2016-2050. Í skýrslunni er gerð grein fyrir helstu sviðsmyndum um eldsneytisnotkun á landinu næstu áratugina. Í Eldsneytisspá orkuspárnefndar frá árinu 2016 er sett fram spá um þróun eldsneytisnotkunar og annarra tengdra orkugjafa til ársins 2050 miðað við óbreyttar aðstæður.

Forsendur spárinnar eru fjölmargar og er meðal annars farið ítarlega yfir tækniframfarir og breytingar í notkunarmynstri í þeim atriðum sem tengjast eldsneytisnotkun. Umgjörð stjórnvalda skiptir verulegu máli
þegar kemur að eldsneytisnotkun og geta stjórnvöld sett fram hvata til að ná fram breytingum.Ómögulegt er að spá fyrir um hvernig umgjörð stjórnvalda breytist og að sama skapi hvenær vænta má slíkra breytinga.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Orka og Iðnaður sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.