Karl Steingrímsson, sem löngum hefur verið kenndur við verslunina Pelsinn, hefur áform um að byggja 24 íbúðir ofan á verslunarmiðstöðina í gamla Kaupfélagshúsið á Selfossi. Áætlaður kostnaður við verkefnið kostar um einn milljarð króna. Á fyrstu hæð hússins eru verslanir Krónunnar, Lyfja og heilsu, bakarí og fleiri. Skrifstofur eru á efri hæðinni. Húsið allt er um 10 þúsund fermetrar að stærð. Með byggingunum ofan á húsinu stækkar það um 3 þúsund fermetra.

Karl hefur átt stóran hluta hússins síðan árið 2007 í gegnum félagið Fasteignafélag Kjarnans, sem skráð er fyrir 82% eignarhlut. Hann segir í samtali við Morgunblaðið í dag langt um liðið síðan nýjar íbúðir hafi verið reistar í miðbæ Selfoss.

Í blaðinu segir að framkvæmdin hafi farið í grenndarkynningu án athugasemda og er næsta skref að boða til fundar með meðeigendum hússins og ákveða framhaldið.

Þetta er fjarri því eina fasteignaverkefni Karls um þessar mundir. Hann er jafnframt að reisa 7 íbúðir við Norðurstíg í miðbæ Reykjavíkur og er unnið að því að opna gistihús í Naustinu við Vesturgötu. Í kjallara hússins verður opnaður veitingastaður, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.