Karl Steingrímsson, betur þekktur sem Kalli í Pelsinum, skrifaði í gær undir afsal hússins við Austurstræti 16 og afhenti dótturfélagi fasteignafélagsins Regins.

„Þetta er stór dagur í lífi mínu að skrifa undir afsal á Austurstræti 16 sem margir þekkja sem Reykjavíkurapótek. Það er ekkert leyndarmál að þetta hús hefur verið mitt helsta stolt, enda einstakt og ákaflega þýðingarmikið fyrir bæði borgarbraginn og götumynd gamla miðbæjarins. Það er með gleði í hjarta sem ég fel nýjum eigendum umsjána með húsinu, hugmyndir þeirra um starfsemi sem hentar húsinu og einstakri staðsetningu þess falla að mínum eigin og ég óska þeim og framtíðarleigutökum hússins alls hins besta,“ segir Karl í tilkynningu sem send var fjölmiðlum í dag.

Eins og greint var frá á Vb.is í gær þá hafa kaupin gengið í gegn en þau hafa staðið yfir síðustu vikurnar. Fram kemur í tilkynningunni sem send var í dag að Reginn leitar nú að leigutaka til að hefja rekstur í húsinu. Stefnt sé að því að í því verði starfsemi sem „styður við, eflir og auðgar miðborgarlíf í Reykjavík. Er þá einkum horft til veitingaþjónustu og ferðatengdrar starfsemi.“