Stór hluti fasteignarinnar Austurvegur 1-5 á Selfossi, sem nefnd hefur verið Kjarninn, hefur nú verið seldur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stakfelli fasteignasölu sem sá um viðskiptin.

Seljandi fasteignarinnar er Kjarnafasteign, félag í eigu Karls Steingrímssonar, sem er betur þekktur sem Kalli í Pelsinum. Kaupandi er Höfðaeignir, dótturfélag Festar. Kaupverð er trúnaðarmál.

Félagið Vindasúlur ehf., sem var í eigu Karls og átti áður Austurveg 1-5, var fyrir nokkru úrskurðað gjaldþrota og lauk skiptum í lok síðasta árs. Almennar kröfur í búið námu tæplega 1,3 milljörðum króna, en 657 milljónir króna fengust greiddar upp í veðkröfur en 297 milljónir í almennar kröfur.

Félagið hélt utan um átta fasteignir í lok árs 2008, en Karl stofnaði ný félög utan um þær á árinu 2009 líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir nokkrum árum.