Seðlabankastjóri og fjármálaráðherra Kína fóru út af fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans sem fram fór í Tókíó í Japan í dag. Brotthvarfið er sagt einkennandi fyrir versnandi samskipti Kínverja og Japana og geta haft neikvæð áhrif á heimshagkerfið, að því er greinahöfundar Wall Street Journal segja af fundinum.

Þjóðirnar hafa karpað um áraraðir. Nýjasta deilumálið snýst um yfirráð yfir litlum eyjum á Kínahafi. Í tengslum við það hafa Kínverjar hótað að beita Japana viðskiptaþvingunum og hætta kaupum á japönskum vörum, svo sem bílum. Í Wall Street Journal segir m.a. að viðskiptaþvinganir geti skilað neikvæðum áhrifum á japanskt efnahagslíf upp á 0,8% á síðasta ársfjórðungi og 0,2% í byrjun næsta árs.

Blaðið hefur jafnframt eftir framkvæmdastjóra eignastýringarfyrirtækis í Japan að hann hafi áhyggjur af þróun mála, enda geti viðskiptaþvinganir haft slæmar afleiðingar í för með sér.