*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 5. júlí 2019 08:41

Kampavínsmetið frá 2007 í hættu

Sala á kampavíni í verslunum ÁTVR hefur aukist um 18% það sem af er þessu ári miðað við sama tímabil í fyrra.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sala á kampavíni í verslunum ÁTVR hefur aukist um 18% það sem af er þessu ári miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri greiningu Íslandsbanka. Það lítur því út fyrir það að þó svo að það séu blikur á lofti í íslensku efnahagslífi þá séu íslendingar hvergi nærri hættir að skála í kampavíni.

„Í hruninu á seinni helmingi ársins 2008 tók sala á kampavíni skarpa dýfu og var árið 2009 um 50% minni en árið á undan. Lítil kampavínssala var árin 2009-2015 en á þeim tíma var vöxtur einkaneyslu hægur lengst af og Íslendingar héldu almennt að sér höndum í kaupum á hvers kyns munaðarvöru. Aftur tók salan þó við sér 2016 en þá var hagkerfið komið á mikið skrið. Mesta sala kampavíns frá hruni virðist hafa verið árið 2018 þegar um 14.400 lítrar voru seldir í ÁTVR, ekki langt undir metárinu 2007," segir í greiningunni.

Í greiningunni kemur jafnframt fram að góð staða heimilanna sé helsta ástæða þess að kampavínssala hafi ekki dregist saman þrátt fyrir stöðuna í efnahagslíifinu og búist er við að einkaneysla haldi áfram að vaxa þó vöxturinn verði hægari en hann hefur verið. 

„Í sumar gefast mörg tilefni til að skála í kampavíni og hefur veðrið mestan part verið að leika við landann það sem af er sumri. Þrátt fyrir samdráttartal er útlit fyrir að landinn sé enn nokkuð bjartsýnn að þessu leytinu. Því má búast við því að Íslendingar haldi áfram að skála í kampavíni á næstu misserum og að öllum líkindum í jafnvel meira mæli en góðærisárið 2007," segir í greiningunni.

Stikkorð: Íslandsbanki Kampavín Greining