*

þriðjudagur, 16. júlí 2019
Innlent 21. apríl 2018 19:02

Kampavínssala komin í fyrra horf

Sala á kampavíni er nánast sú sama og hún var árið 2007. Íslendingar drekka um eitt glas af kampavíni á ári en Frakkar ríflega eina flösku.

Andrés Magnússon
Söluaukninguna eftir hrun má vafalaust rekja að miklu leyti til stóraukins ferðamannastraums.

Samkvæmt útflutningstölum franskra kampavínsframleiðenda náði kampavínssala á Íslandi nýjum hæðum á liðnu ári, alls 66.419 flöskum. Það er sambærilegt við það sem mest gerðist fyrir bankahrun, en árið 2007 nam hún 67.803 flöskum. Hér ræðir aðeins um alvöru kampavín, ekki freyðivín.

Líkt og sjá má á grafinu hér að ofan dalaði salan ört árið 2008 og fór niður í 18.108 flöskur árið 2010. Árið 2015 tók hún svo aftur að aukast til muna og hefur nú náð fyrri hæðum. Salan nam í fyrra um 15 kössum á dag eða sem nemur um einu glasi á hvert mannsbarn á ári. Á móti kemur að söluaukninguna má vafalaust að miklu leyti rekja til stóraukins ferðamannastraums undanfarin ár. Árið 2007 komu ríflega 450 þúsund erlendir ferðamenn til landsins en í fyrra komu tæplega 2,2 milljónir.

Þrátt fyrir þessa auknu kampavínsneyslu hér á landi, þá nemur hún aðeins um einu 150 ml glasi á mann á ári, en í Frakklandi svolgra menn ríflega einni kampavínsflösku á mann, meðan víðast í Evrópu láta menn sér hálfflösku nægja á ári að meðaltali.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: áfengi Frakkland Ísland kampavín
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is