Sænska Kamprad-fjölskyldan er hætt við að selja gleraugnaverslunina Synsam. Tilraun fjölskyldunnar til þess fór út um þúfur á dögunum. Sænska dagblaðið Dagens Industri segir verðið hafa verið of hátt. Synsam-verslunin er í eigu fjárfestingarsjóðsins Alipes, sem er í eigu Kamprad-fjölskyldunnar. Höfuð fjölskyldunnar er Ingvar Kamprad, stofnandi og aðaleigandi Ikea-verslunarinnar.

Undir Synsam-merkinu eru 400 gleraugnaverslanir á Norðurlöndunum og hefur Alipes-sjóðurinn unnið að sölu á versluninni síðan í haust. Dagens Industri segir nokkra fjárfesta hafa sýnt henni áhuga fyrsta kastið. Á meðal þeirra voru í október sagðir stórir sjóðir á borð við Blackstone, KKR, Advent, Lion Capital og Bain Capital, sem Mitt Romney, forsetaefni Repúblikana, stýrði eitt sinn. Auk þessa munu norrænu sjóðirnir EQT og Ratos hafa sýnt verslunum áhuga.

Í Dagens Industri segir m.a. að Alipes hafi viljað fá fjóra milljarða sænskra króna fyrir verslanirnar. Það hafi þótt vel í lagt og væntanlegir kaupendur því tínt tölunni í unnvörpum. Blaðið hefur eftir heimildamanni sínum að vel megi selja Synsam-verslanirnar. Til að koma því í kring þá verði að lækka verðið.