Atvinnulífið í Kanada virðist vera að komast á gott skrið og voru pantanir hjá framleiðslufyrirtækjum í desember þær mestu sem sést hafa í fjögur ár. Þá er verksmiðjustörfum farið að fjölga á ný í fyrsta sinn í fimm og hálft ár samkvæmt nýjustu tölum JPMorgan.

Fjallað er um málið í Financial Post í Kanada og þar kemur fram að fyrirtæki á borð við Toyota Motor Manufacturing Canada Inc. og General Motors Co. hafi nú uppi áform um að fjölga starfsmönnum í verksmiðju sínum í Ontario á fyrri helmingi þessa árs. Þá eru 30 milljarðar dollara að streyma í nýjar fjárfestingar í vinnslu á olíusandi, sem er hærri upphæð en ríkisstjórnin ákvað að veita til að örva atvinnulífið í landinu.

Tölur JPMorgan hafa haft jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn og leitt til hækkunar olíuverðs. Þá hefur verðgildi Kanadadollars hækkað gagnvart Bandaríkjadollar og kostar Kanadadollarinn nú rúmlega 96 bandarísk cent.

Financial Post bendir þó á að þrátt fyrir jákvæðar bendingar, þá sé enn langt í land að það takist að endurheimta þau 200.000 störf sem töpuðust á síðasta ári. Warren Jestin yfirhagfræðingur Scotiabank segir að þrátt fyrir fjölgun starfa þá muni ekki takast á þessu ári að endurheimta það sem tapast hafi.