Bati á fasteignamarkaði í Kanada er mun hraðari en sérfræðingar höfðu þorað að vona. Samkvæmt úttekt Global Property Guide byrjaði markaðurinn að taka við sér í febrúar eftir 0,7% meðaltalssamdrátt á árinu 2008. Sala nýrra íbúða fór að aukast í febrúar og endursöluverð fasteigna tók svo að hækka í maí.

Að mati sérfræðinga er þessi bati fyrst og fremst knúinn áfram af lágum vöxtum og um leið þeim afturkipp á fasteignaverði sem varð í fyrra. Vextir eru nú á bilinu 3,75% til 4%. Í ágúst 2008 voru eins árs vextir á fasteignaveðlánum hins vegar 6,65%. Í ágúst hafi íbúðasala aukist um 18,5% miðaða við sama tíma 2008.

Þrátt fyrir að það drægi úr hækkunum í flestum landshlutum í fyrra og raunlækkun yrði sumstaðar, átti það alls ekki við landsvæði á borð við Nýfundnaland. Þar hækkaði fasteignaverð 2008 um heil 19,6%. Kanadamenn upplifðu því aldrei sama hrun á fasteignamarkaði og varð t.d. í Bandaríkjunum og heldur ekki jafn alvarleg vandamál í bankakerfinu.