Á einum mánuði seldi kanadíska ríkisstjórnin, sem kjörin var til valda í október á síðasta ári, helming alls síns gullforða. Nú hefur fjármálaráðuneyti ríkisins gefið frá sér tilkynningu þar sem því er lýst yfir að gulleignir ríkisins séu nákvæmlega núll grömm.

Gullverð er tiltölulega hátt þessa dagana - þótt það hafi nú verið hærra - svo ætla má að ríkissjóðir þjóðarinnar hafi fengið vænan skilding fyrir eðalmálminn. Gullverð er um 1,242 Bandaríkjadalir í dag.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu kanadíska segir að gjaldeyriseignir ríkisins hafi aukist um 108 milljónir Bandaríkjadala. Á sama tíma drógust gulleignir ríkisins saman um sömu upphæð. Það eru um 14 milljarðar íslenskra króna.

Til samanburðar má geta þess að samkvæmt tölum frá Seðlabankanum stendur gulleign íslenska ríkisins í um 9,3 milljörðum íslenskra króna.