Kanadamenn, sem eru með áttunda stærsta hagkerfi heims, hafa farið þveröfugt að í skattamálum en Íslensk stjórnvöld. Til að örva efnahagskerfið og heilbrigða samkeppni hafa þeir valið þá leið að lækka skatta í kreppunni. Meira að segja mengunarskattar (Carbon Tax) hafa nú verið lækkaðir um 5% til samræmis við aðrar skattalækkanir.

Væntanlega er skattalækkunarleiðin farin í ljósi reynslunnar, því fyrr á árum voru t.d. svokallaðir fyrirtækjaskattar í Kanada með þeim hæstu sem þekktust innan OECD ríkja og að sama skapi var lítil virkni í efnahagslífinu. Aðeins Ítalir voru þá með hærri fyrirtækjaskatta en Kanadamenn. Á fyrri hluta síðasta árs var spáð mesta samdrætti í Kanada síðan 1961, eða 8,5%.

Fyrirtækjaskattar voru 22,12% í Kanada árið 2007. Þeir voru lækkaðir í 20,5% á árinu 2008 og í 20% á árinu 2009. Nú á árinu 2010 verða þeir 19% og fjármálaráðherra landsins hefur gefið það út að þeir verði lækkaðir í 18,5% árið 2011. Þá eru svokallaðir verkefna-, eða framkvæmdaskattar lækkaðir verulega. Þeir voru 22,12% árið 2007, en voru lækkaðir í 19,5% árið 2008 og í 19% árið 2009. Á þessu ári fara þeir í 18%, í 16,5% árið 2011 og í 15% á árinu 2012. Fyrirtækja og framkvæmdaskattar í Kanada geta verið mismundandi eftir landsvæðum og hefur fjármálaráðherrann hvatt til að þeir verði samræmdir.

Samkvæmt útreikningum Fraser Institute borgaði meðalfjölskyldan í Kanada 43% af öllum tekjum sínum í skatta á árinu 2009. Fundu þeir út að ef fyrri hluti árs færi eingöngu í að greiða skatta, þá hafi fyrsti skattleysisdagurinn á árinu 2009 verið þann 6. júní, en hann var 9. júní á árinu 2008. Þá er átt við alla skattheimtu sem viðkemur heimilum og ríkið innheimtir, þ.e. launaskattur, söluskattur, eignaskattur, auðlindagjald, eldsneytisskattur, sjúkrahússkattur og annað.

Mesta skattinnheimtuhlutfallið að meðaltali í sögu Kanada var samkvæmt útreikningum Frasers á árinu 2000, en þá var fyrsti skattleysisdagurinn þann 24. júní. Skattleysisdagurinn fellur þó á mismunandi daga eftir landshlutum vegna mismunandi skattlagningar. Þannig var hlutfallið hagstæðast í fyrra í New Brunswick þar sem skattleysisdagurinn var 16. maí. Verst var ástandið í Saskatchwan, en þar voru menn ekki orðnir skattlausir fyrr en 20. júní.