Kanadíska lággjaldaflugfélagi Zoom Airlines er gjaldþrota. Flug félagsins stöðvaðist á fimmtudag og lentu að minnsta kosti 4.500 farþega félagsins í miklum vandræðum, m.a. í Skotlandi. Þar á meðal var íslensk-kanadísk fjölskylda sem búsett er í Kanada og var á leið til Vancouver.

Sögðu þau að ein véla Zoom Airlines hafi þá verið komin út á braut og hafi verið að hefja flugtak í Glasgow þegar hún var kyrrsett af flugmálayfirvöldum og farþegum skipað að fara aftur frá borði. Ástæðan var sú að félagið hafði ekki greitt sín gjöld til flugumferðarstjórnar.

Auk þeirra 4.500 farþegar sem lentu í vandræðum voru að sögn breskra flugmálayfirvalda um 60.000 til viðbótar búnir að kaupa flugmiða með félaginu sem nú eru einskis virði.

Þá hafa verið fregnir um að félagið hafi skuldað flugvallayfirvöldum í Vestur-Kanada stórar upphæðir lendingargjöld. Þegar vandræðin voru ljós slitu flugrekstaraðilar einnig samningum um leigu á flugvélum til Zoom Airlines. Engar tilkynningar voru gefnar út til farþega félagsins í Skotlandi um rekstrarstöðvunina, en fólkið fékk fregnirnar um gjaldþrotið í gegnum fjölmiðla.

Lággjaldaflugfélagið Zoom Airlines hóf starfsemi árið 2002. Voru starfsmenn þess um 450 í Kanada og 260 í Bretlandi þegar reksturinn var stöðvaður á fimmtudag að kröfu lánadrottna. Það flaug til sex staða í Bretlandi sem og til Parísar og Rómar. Þá var félagið einnig með starfsemi í átta borgum í Kanada, auk New York, San Diego, Fort Lauderdale og Bermunda.

Zoom Airlines er eitt fjölmargra flugfélaga sem undanfarin átta ár hafa farið flatt á að keppa við Air Canada og WestJet Airlines á lægri fargjöldum. Þeirra á meðal var Canada 3000, sem m.a. millilenti á Íslandi, Jetsgo, CanJet og Harmony Airways. Talið er að hækkanir á eldsneytiskostnaði hafi nú bundið enda á tilraun Zoom Airlines.