Utanríkisráðherrarnir funduðu í Ráðherrabústaðnum í dag. Þeir ræddu meðal annars samstarf í öryggis- og varnarmálum en kanadíski flugherinn hefur í tvígang tekið þátt í loftrýmisgæslu á Íslandi. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að á fundinum hafi ráðherrarnir rætt um að kanadíski herinn myndi áfram sinna hér loftrýmisgæslu. Þá ræddu þeir öryggishorfur í Evrópu, meða annars í tengslum við ástandið í Úkraínu og uppgang hryðjuverkasantakanna ISIS.

Ráðherrarnir ræddu um útvíkkun á fríverslunarsamningi EFTA og Kanada, svo að hann nái til fleiri sviða en vöruviðskipta, svo sem þjónustuviðskipta, fjárfestinga, verndunar hugverkaréttinda og opinberra innkaupa. Einnig ræddu þeir möguleika á að gera samning á milli landanna um að greiða fyrir heimildum ungs fólks til ferða og atvinnu á milli ríkjanna.

Gunnar Bragi og Baird ræddu um þróun á norðurslóðum, mikilvægt samstarf Íslands og Kanada á því sviði og undirbúning ráðherrafundar Norðurskautsráðsins sem haldinn verður í Iqaluit í Kanada í apríl 2015.

„Gunnar Bragi nefndi sérstaklega þann mikla fjölda Íslendinga sem fluttist til Kanada í lok 19 aldar og sterkum tengslum þeirra við Ísland. Hann sagði íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að rækta þessi tengsl, sem myndu vonandi nýtast í öðrum samskiptum landanna, bæði menningarlega, í viðskiptum, norðurslóðamálum og öðrum alþjóðamálum en einn afkomandi Vesturfaranna, öldungardeildarþingmaðurinn Janis Gudrun Johnson frá Manitoba, var með í föruneyti Baird," segir í tilkynningu.

Baird átti í dag einnig fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Þeir ræddu meðal annars um viðskipti og fjárfestingar milli landanna sem fara vaxandi, sem og fjölgun ferðamanna, en nú er flogið beint frá Keflavík til fjögurra áfangastaða í Kanada.