Kanadísku bankarnir BMO og Simplii Financial hafa greint frá því að hugsanlega hafi óprútnir aðilar komist yfir persónulegar og fjárhagslegar upplýsingar um viðskiptavini bankanna. BMO telja að viðkvæmum upplýsingum tæplega 50.000 viðskiptavina hafi verið stolið, en Simplii Financial telja að um það bil 40.000 viðskiptavinir hafi verið fórnarlömb stuldarins.

Síðastliðinn sunnudag settu þjófarnir sig í samband við báða bankana til að láta þá vita að þeir hafi komist yfir þessar upplýsingar. BMO hafa gefið það út að þeir telji að þessi árás hafi verið framkvæmd af erlendum aðilum. Talið er að sami gerandinn sé á bakvið þessar tölvuárásir.

Að sögn BMO hafa þeir haft samband við þá viðskiptavini sem lentu í því að upplýsingum þeirra var stolið, en þeir telja sig hafa náð að koma í veg fyrir frekari aðgang þjófanna að þessum viðkvæmu gögnum. Simplii Finance telja að þessi árás hafi ekki haft áhrif á reikninga viðskiptavina sinna en hafa heitið því að endurgreiða viðskiptavinum sínum þá fjárhæð sem stolið var af reikningum þeirra, ef slíkt myndi gerast.

Lögreglan í Kanada hefur þegar hafið rannsókn á þessu máli, en ekki er talið að aðrir bankar innan Kanada hafi lent í þessari árás. Sagt er frá þessu á vef WSJ .