Kanadískt fyrirtæki, Genizon BioSciences, hefur farið svipaða leið og deCODE genetics fór hér á landi, með því að skoða erfðir Kanadamanna af frönskum uppruna. Frá þessu er sagt á vefnum technologyreview.com, sem er á vegum hins virta MIT háskóla í Bandaríkjunum. Þar er einnig viðtal við Kára Stefánsson, stofnanda deCODE, um starfsemi fyrirtækisins.

15.000 Frakkar fluttu til Austur-Kanada á 17. öld. Hluti þeirra hélt vestur á bóginn, margir sneru aftur til Frakklands, en nokkrir tóku sér búsetu í Quebec. Hópurinn taldi aðeins 2.600 manns á árunum 1608-1760, en 800-faldaðist á næstu 10 kynslóðum og blandaðist á þeim tíma lítið öðrum Kanadabúum. Þannig varð til, líkt og á Íslandi, tiltölulega einsleitur og skyldur hópur fólks, tilvalinn til rannsókna á sjúkdómum sem tengjast erfðum.

Genizon hefur unnið að því á síðustu fimm árum að rannsaka 20 sjúkdóma -- m.a. Chrons sjúkdóminn, astma, geðklofa og sykursýki. Vísindamenn fyrirtækisins byrjuðu á því að teikna erfðakort hópsins; byggt á rannsóknum á 1.500 einstaklingum innan hans, og var það kort tilbúið árið 2004.

Í viðtali Technology Review við Kára Stefánsson segir hann m.a. frá hjartalyfi fyrirtækisins, sem senn kemst á lokatilraunastig. Hann er spurður hvort hann spái því að fleiri fyrirtæki sæki inn í erfðarannsóknir á næstunni. "Þegar við byrjuðum voru 25 önnur fyrirtæki af svipuðum toga -- en þau breyttu öll starfsemi sinni vegna þess að þau gátu ekki fundið sjúkdómserfðavísi. Erfðafræði eru byggð á fólki. Við náðum árangri vegna þess að við byggðum starfsemi fyrirtækisins á þjóð.

Þegar tæknin við að tengja erfðaefni [við sjúkdóma] hefur verið þróuð betur verður auðveldara að finna sjúkdómserfðavísa. Á næstunni verða verkefni af þessu tagi mun fleiri.

Fyrirtæki á borð við GlaxoSmithKline munu byrja að nota erfðatækni til að finna viðfangsefni og hanna klínískar rannsóknir. En ég spái því að mörgum muni reynast erfitt að ráða við magn upplýsinga [sem þessar rannsóknir leiða í ljós]."