Fram til þessa hefur frekar verið búist við því að annar banki taki breska bankann Barclays yfir en að hann sjálfur myndi standa í yfirtöku. Enda skóku fréttir af yfirtökuviðræðum forráðamanna bankans við starfsfélaga sína í hollenska bankanum ABN Amro fjármálaheiminn. Ef að yfirtökunni verður er um að ræða stærsta bankasamruna sögunar, en talið er að Barclays hyggist bjóða um 80 milljarða Bandaríkjadala í ABN. Talið er að fréttirnar verði að aðrir stórir bankar hugsi sér til hreyfings enda myndi nýr risabanki líta dagsins ljós í kjölfar samrunans. Fréttirnar kunna að hrinda af stað yfirtökuhrinu meðal alþjóðlegra fjármálafyrirtækja.

Líklegt þykir að aðrir bankar muni gera tilboð í ABN á síðustu stundu. Citigroup og HSBC hafa verið nefndir í þessu samhengi. Jákvæð viðbrögð fjárfesta við fréttum af viðræðum Barclays og ABN, en hlutabréf í bönkunum hafa hækkað í verði í vikunni, kunna jafnframt að vekja áhuga fleiri banka á því að blanda sér í leikinn. Sérstaklega í ljósi þeirra skoðunar sérfræðinga að aðrir bankar en Barclays muni njóta mun meiri samlegðaráhrifa af yfirtöku á ABN.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.