Samgönguráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp til að kanna hagkvæmni þess að sameina opinberu hlutafélögin Flugstoðir og Keflavíkurflugvöll.

Verði sameiningin talin fýsilegur kostur gæti hið sameinaða félag tekið við starfsemi beggja félaganna eigi síðar en 1. janúar 2010.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samgönguráðuneytinu.

Flugstoðir ohf., sem stofnaðar voru í ársbyrjun 2007, annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla og lendingarstaða á Íslandi, annarra en Keflavíkurflugvallar. Einnig annast Flugstoðir alla flugleiðsöguþjónustu sem Ísland veitir fyrir alþjóðlegt flug og innanlandsflug. Alls starfa kringum 230 manns hjá félaginu.

Á liðnu sumri var stofnað opinbera hlutafélagið Keflavíkurflugvöllur þar sem sameina á rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Unnið hefur verið að undirbúningi síðan og var forstjóri ráðinn í byrjun október. Fjöldi starfsmanna þess verður kringum 300 manns.

Í tilkynningunni kemur fram að með hliðsjón af efnahagsástandinu hefur Kristján L. Möller samgönguráðherra ákveðið að láta fara fram könnun á hagkvæmni þess að sameina þessi félög.

„Talið er að ná megi fram ýmsum samlegðaráhrifum og hagkvæmni í rekstri og þjónustu á flugvöllum, í flugleiðsögu og tengdum rekstri, svo og í langtíma þróunar- og skipulagsstarfi,“ segir í tilkynningunni.

Í ljósi þessarar ákvörðunar samgönguráðherra verður ekki að sinni af flutningi flugleiðsöguþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli til Flugstoða ofh. sem ráðgerður var nú um áramótin.

Starfshópurinn verður skipaður næstu daga og er niðurstöðu hans að vænta á fyrri hluta næsta árs.