Á fundi stjórnar Orkuveitunnar í dag var samþykkt ályktun um þá ákvörðun Reykjavík Energy Invest (REI) að kanna hvort möguleiki sé að stofna opinn fjárfestingasjóð utan um þau verkefni sem REI hefur tekið að sér.

Í ályktun stjórnar Orkuveitunnar kemur fram að sérstakri ráðgjafanefnd verði falið að gera tillögu um nánari útfærslu og aðferðafræði við val samstarfsaðila, en nefndin skilar áliti innan tveggja vikna.

„Stjórnin mun jafnframt hefja vinnu við að útfæra samningsmarkmið REI gagnvart væntanlegum viðsemjanda, láta verðmeta framlag REI/Orkuveitu Reykjavíkur (OR) til væntanlegs samstarfs og taka afstöðu til þess hvaða verkefni REI er hugsanlegt að verði fjármögnuð af sjóðnum. Niðurstöður þessarar vinnu verði bornar undir stjórn OR. Leiði þessi vinna til samkomulags við aðila um stofnun fjárfestingarsjóðs skal samkomulagið borið undir stjórn OR og eftir atvikum eigendafund, feli það í sér breytingu frá áður markaðri stefnu eigenda um málefni REI,“ segir í ályktun stjórnar Orkuveitunnar.

Þar kemur einnig fram að markmið með stofnun fjárfestingasjóðsins sé að hámarka afrakstur af orðspori og þekkingu Orkuveitunnar og lágmarka fjárhagslega áhættu eigenda REI.