Samkeppniseftirlitið hyggst nú „ taka til sjálfstæðrar skoðunar “ hvort seta Evu Bryndísar Helgadóttur, sem kosin var í stjórn Haga fyrr í dag, fari gegn ákvæðum og markmiðum fyrirliggjandi sátta eftirlitsins og Haga eða ekki.

Ef Samkeppniseftirlitið telur setu hennar brjóta gegn sátt, sem Samkeppniseftirlitið og Hagar gerðu 2018 vegna kaupa Haga á Olíuverzlun Íslands, mun SKE samt sem áður ekki sekta Haga. Svo lengi sem brugðist yrði við af hálfu Haga og nýr einstaklingur kosinn í stjórnina. Þetta kom fram í svari SKE við fyrirspurn Haga sem félagið sendi frá sér skömmu fyrir aðalfundinn í dag.

Samkeppniseftirlitið gerði upphaflega athugasemd við framboð til stjórnar félagsins þar sem þau töldu Evu Bryndísi enn vera stjórnarformann Olíudreifingarinnar, þar sem hún er enn skráð stjórnarformaður samkvæmt ríkisskattstjóra. Því myndi seta hennar í stjórn Haga brjóta gegn sátt þar sem í 22. gr. sáttarinnar er meðal annars mælt fyrir um samkeppnislegt sjálfstæði stjórnar Haga og í 21. gr. er fjallað um óhæði stjórnarmanna Olíudreifingar gagnvart Högum.

Hins vegar er ljóst að Eva Bryndís sat ekki í stjórn Olíudreifingarinnar þegar framboð til stjórnar Haga var tilkynnt. Samkeppniseftirlitið telur samt réttast að taka til sjálfstæðrar skoðunar um hvort seta hennar fari gegn ákvæðum eða ekki.