Takmarkið er að kanna hvort lúðan lifir það af að vera sleppt eftir að hafa verið dregin á þurrt. Sannist að stórlúðan þoli að vera veidd og sleppt aftur, er líklegt að það hafi áhrif á veiðifyrirkomulag og sleppingar skyldaðar.

Stórlúður verða merktar með tveimur tegundum merkja. Annars vegar er um að ræða merki sem losna frá hýsli sínum eftir tiltekinn tíma og tekur að senda boð í gegnum gervitungl þegar það nær yfirborði. Einnig verða lúður merktar með sérstökum búnaði sem sendir merki til nema á hafsbotni og gerir kleift að rekja ferðir þeirra yfir tiltekið tímabil. Stefnt er á að merkja 150 stórlúður fyrir vorið. Rannsóknin er gerð að beiðni sjómannanna sjálfra sem vilja vernda hrygningarfisk með öllum ráðum.

Lúðustofninn við Nýfundnaland og hafsvæðinu þar norður og suður úr er ekki eins illa staddur og hann var á tíunda áratugnum, en þá voru veiðar takmarkaðar að hvatningu sjómanna. Aflaheimildir hafa sexfaldast frá þeim tíma, eða úr 850 tonnum í 5.500 tonn.

Allar beinar veiðar á lúðu við Ísland eru óheimilar en nokkuð af tegundinni veiðist þó alltaf sem meðafli. Bannið tók gildi 1. janúar 2012 að tillögu Hafrannsóknastofnunar sem hafði þá í mörg ár bent á að viðkomubrestur hefði orðið í stofninum og nýliðun lítil.

Fyrir bannið á árunum 2007 til 2011 veiddust 430 til 550 tonn á ári, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Aflinn datt niður í um 35 tonn fyrsta ár veiðibannsins en hefur verið að aukast síðan jafnt og þétt og var um 88 tonn árið 2015, 122 tonn árið 2016 og 104 tonn árið 2018.