Auglýsingastofurnar ENNEMM og Hvíta húsið, sem tóku þátt í útboði fyrir kynningarátakið Inspired by Iceland, eru að kanna rétt sinn á skaðabótum vegna afturköllunar á tillögugerð. Starfshópur á vegum íslenska ríkisins óskaði upphaflega eftir tillögum frá auglýsingastofunum en sú bón var dregin til baka. Jón Sæmundsson, framkvæmdastjóri ENNEMM, segir málið vera til skoðunar. „Við munum aldrei fara í mál en við erum að kanna hvort við getum rukkað þetta á grundvelli fyrra máls,“ segir Jón og vitnar í mál sem Jónsson & Le’Macks höfðaði gegn íslenska ríkinu. Kristinn R. Árnason, annar af framkvæmdastjórum Hvíta hússins, segir málið einnig vera í skoðun hjá þeim.

Daníel Isebarn Ágústsson, annar lögmannanna sem ráku málið fyrir Jónsson & Le’Macks, staðfestir að ENNEMM og Hvíta húsið séu með málin til skoðunar og að reynt verði að innheimta skaðabætur á grundvelli máls Jónsson & Le’Macks. Daníel segir óvíst hvort farið verði í mál við íslenska ríkið en það fari eftir viðbrögðum þess við skaðabótakröfunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.