*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Erlent 6. janúar 2021 18:39

Græn bylting í kjölfar blárrar

Hlutabréf í kannabisfyrirtækjum og fyrirtækjum tengdum grænni orku hafa hækkað vegna væntinga um sigur demókrata í einvígi í Georgíuríki.

Ritstjórn
Hlutabréf kannabisfyrirtækja og Tesla, fyrirtækis Elons Musk, hafa hækkað vegna væntinga um sigur demókrata.
Gunnhildur Lind Photography

Viðbrögð á hlutabréfamarkaði hafa verið æði misjöfn við þeim tíðindum að útlit sé fyrir að demókratar merji sigur í einvíginu í Georgíuríkið um síðasta öldungadeildarþingsætið, sem tryggir þeim meirihluta í þinginu. Þó eru tveir geirar sem taka fregnunum sérstaklega fagnandi.

Hlutabréf kannabisfyrirtækja hafa þannig hækkað allverulega í dag, en þau hafa verið á flugi frá því í nóvember þegar Biden var kjörinn og nokkur ríki lögleiddu notkun maríjúana ýmist í skemmtanaskini eða lækningaskini. Fjárfestar virðast þannig binda vonir við að frekari tilslakana sé að vænta á alríkisstigi að því er fram kemur í frétt CNN.

Hlutabréf kanadísku kannabisfyrirtækjanna Aphria og Tilray hafa þannig hækkað um á annan tug prósenta í viðskiptum dagsins vestanhafs og hlutabréf annarra fyrirtækja í sama geira hafa notið viðlíka hækkana.

Þá hafa hlutabréf fyrirtækja sem snúa að vistvænni orku notið hækkana í dag, enda líkur á því að aðgerðir demókrata verði umhverfisvænum fyrirtækjum hagfelld.

Þannig hefur sólarorkufélagið First Solar hækkað um tæp 10% og rafbílarisinn Tesla sem hefur hækkað um tæp 5%. Markaðsvirði Tesla er nú um 730 milljarðar og nálgast markaðsvirði Facebook sem er ríflega 750 miljlarðar.

Því virðist sem hin bláa bylting demókrata á öllum stigum bandarísks löggjafarvalds komi til með að leiða af sér græna byltingu, í víðri merkingu, í hugum fjárfesta vestanhafs.

Tæknifyrirtækin lækka

Hlutabréfamarkaðurinn vestanhafs hefur almennt hækkað lítillega við tíðindin. S&P 500 vísitalan hefur þannig hækkað um 1,29% þegar þetta er skrifað, en aðra sögu er að segja um tæknifyrirtækin.

Hlutabréf Apple, Amazon, Google, Netflix og Facebook hafa öll lækkað lítillega í dag. Vinstri armur stjórnmálanna vestanhafs hefur enda lengi litið tæknirisana hornauga og skapar staðan því væntingar um skattahækkanir og aukið regluverk.