*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 12. ágúst 2020 19:45

Kannabisgel Emmsjé Gauta seldist upp

Emmsjé Gauti og félagar í Birtu CBD framleiða og flytja inn vörur úr olíu sem fæst úr kannabisplöntunni.

Höskuldur Marselíusarson
Gauti Þeyr Másson sinnir ekki einungis tónlist heldur selur hann nú snyrtivörur úr hampolíu, sem geti aðstoðað við kvíða, bólgur, svefnvandamál og fleira.
Gígja Einars

Tónlistarmaðurinn og rapparinn Gauti Þeyr Másson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti er einn þeirra sem standa að félaginu Birtu CBD, sem er ætlað að flytja inn, og þegar það verður löglegt, að framleiða vörur, þar sem aðalinnihaldsefnið er svokölluð CBD hampolía sem fæst úr kannabisplöntum.

„Bakvið Birtu CBD eru nokkrir aðilar en fyrirtækið er meðal annars í eigu mín og Eika Helgasonar atvinnu snjóbrettakappa. Við stofnendur fyrirtækisins höfum öll í okkar horni notað CBD, það er kannabídíól, vörur. Ég prófaði CBD fyrst til að vinna á kvíða en Eiki við eymslum og meiðslum sem óhjákvæmilega fylgja því að detta þúsund sinnum á dag á snjóbretti,“ segir Gauti Þeyr.

„Vörurnar okkar eru lausar við THC sem er vímugjafinn í kannabis. Okkar vörur eru unnar úr iðnaðarhampi og er CBD, kannabídíólið, einangrað úr plöntunni. CBD er ekki vímugjafi. Það þarf að aðskilja umræðuna um vímuefnið THC annars vegar og CBD hins vegar. Því þó svo að efnin sé að finna í hampi þá er eru notuð við framleiðsluna afbrigði iðnaðarhamps sem innihalda lítið sem ekkert THC og með nútímavísindum er gerlegt að einangra CBD ef þess er þörf.“

Gauti Þeyr segir að á undanförnum árum hafi mikil vitundarvakning orðið í heiminum varðandi kosti og eiginleika kannabídíól olía. Hann segir nú þegar töluvert af vörum á íslenskum markaði sem innihaldi kannbídíól olíu, en þá oftast í mjög litlu magni.

„Við seljum einungis vörur sem innihalda mjög mikið magn CBD svo að sá sem notar vörurnar finnur strax fyrir tilætlaðri virkni á því svæði sem varan er borin á. Eftir viðurkenningu vísindasamfélagsins að CBD geti haft mikla líffræðilega virkni á vissar gerðir sjúkdóma hefur áhuginn á CBD, og rannsóknum á því, stóraukist. CBD getur gagnast fólki sem á við kvíða-, streitu- og svefnvandamál eða skylda sjúkdóma að stríða sem og að vinna gegn bólgum og í mörgum tilfellum verkjum,“ segir Gauti Þeyr.

„Upphaflega var hugmyndin að Birta CBD seldi hágæða CBD olíur, en vegna að er virðist hægagangs íslenskra ráðamanna til að nútímavæða íslenskt lagaumhverfi þegar kemur að CBD hefur það tafist. Sala á húð- og snyrtivörum sem innihalda CBD er hins vegar lögleg. Við erum með andlitskremið Dögg, sem er rakagefandi krem með CBD olíu, en fyrsta upplag sem við fengum af vöðvagelinu „Ylur og Frost“ seldist upp á stuttum tíma.

Það gerðist áður en við náðum að opna heimasíðu fyrirtækisins, en hægt hefur verið að kaupa vörurnar í gegnum Instagram og Facebook og svo bætist heimasíðan við á allra næstu dögum. Framtíðarsýnin er klárlega að geta flutt inn fæðubótarefnið CBD og selja það þá annað hvort sem olíu til inntöku eða svo hægt sé að borða það, en þangað til við munum fylgja íslenskri löggjöf eins og hún er nú.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um nýjustu vendingar í málefnum Icelandair og fyrirhugað hlutafjárútboð félagsins
  • Farið er yfir afkomu S4S og forstjóri félagsins tekinn tali, en félagið á og rekur m.a. verslanir Ellingsen, Ecco og Air
  • Sala golfverslana jókst mikið á fyrstu sjö mánuðum ársins, þrátt fyrir tímabundnar lokanir
  • Umfjöllun bandarísks vefmiðils margfaldaði netsölu vestfirsks saltframleiðanda
  • Rætt er við forstjóra olíufélaganna um rekstur þeirra og framtíð
  • Nýr forstjóri Matvælastofnunar er tekinn tali um ferilinn og hugðarefnin
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um hreppaflutninga Framsóknarflokksins
  • Óðinn skrifar um Samherja og Ríkisútvarpið