Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra, hyggst senda réttarfarsnefnd formlegt erindi, í þeim tilgangi að kanna hvort sérstakur saksóknari hafi farið að lögum og reglum um símhleranir.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði Sigmundur Davíð einnig koma til greina að skipa sérstaka rannsóknarnefnd til að rannsaka málið.

Jón Óttar Ólafsson, sem starfaði hjá embætti sérstaks saksóknara á árunum 2009 til 2012, sagði á dögunum að innan embættisins hefðu iðulega verið stundaðar hleranir á símtölum lögmanna við skjólstæðinga sem voru til rannsóknar hjá embættinu. Hann sagði jafnframt að „brenglaður hugsunarháttur“ hefði verið til staðar hjá embættinu.

Sigmundur Davíð segir mikilvægt að taka svona ásakanir alvarlega, ekki síst vegna þess hversu miklu máli skipti að stofnanir sem þessar njóti trausts.