Að sögn Jóns Þórissonar, framkvæmdastjóra VBS Fjárfestingabanka, eru engar innheimtuaðgerðir í gangi vegna láns Tryggingamiðstöðvarinnar til bankans. hann sagðist ekki vita betur en að samstarf sé um það á milli aðila

Hvers eðlis var þetta lán TM og í hvers konar fjárvörslu var það hjá ykkur?

,,Hér er ekki um fjárvörslu að ræða heldur fjármögnun sem við höfum sótt á markaðinn í takt við það sem almennt gerist. Form fjármögnunar getur verið með mismunandi móti og er ýmist um að ræða víxla, skuldabréf eða annað form sem hentar þeim sem vill ávaxta sitt fé.  VBS hefur ekki viðskiptabankaleyfi og tekur því ekki við innlánum. Fjárfestingar í skuldabréfum og víxlum VBS eru því áhættusamari en innlán og er áhættum sem tengjast rekstri  bankans lýst ítarlega í skráningarlýsingum þeirra víxla og skuldabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta í kauphöll Íslands.  Almennt eru ávöxtunarkjör víxla og skuldabréfa VBS vel samkeppnisfær og velja því margir fagfjárfestar að ávaxta hluta af fjármunum sínum hjá bankanum."

Höfðu starfsmenn TM eitthvað að segja um meðhöndlun fjármunanna eftir að þeir komu í ykkar vörslu?

,,Starfsmenn TM hafa enging áhrif á ráðstöfun fjármuna VBS þótt þeir hafi kosið að ávaxta laust fé TM hjá VBS."

Var þetta hluti af hefðbundinni fjármögnun VBS?

,,Fjármálafyrirtæki hérlendis hafa leitað víða fanga í fjármögnun á starfsemi sinni, til banka, fagfjárfesta, lífeyrissjóða og tryggingarfélaga svo dæmi séu tekin. Í því sambandi er leitað hagstæðrar fjármögnunar í tíma og kjörum þannig að tryggja megi tekjur að tekjur af starfseminni séu meiri en sem nemur kostnaði við fjármögnunina." Heimildir Viðskiptablaðsins segja að fjármunirnir hafi verið notaðir til að kaupa hlutabréf í FL Group - hvað segir þú við því?

,,Það einkennir þessa tíma að margt er sagt og margar kviksögur eru í gangi. Við getum ekki elt ólar við orðróm en almennt eru fjárfestingarbankar á borð við VBS í fjölbreyttri starfsemi. Lánastarfsemi, fjármögnunarþjónustu af ýmsu tagi og  miðlun af ýmsum toga. Framan af ári áttum við hlutabréf í fjölmörgum fyrirtækjum, Kaupþingi, Glitni, Landsbanka, Icelandic Group, Exista og FL – Group. Þau bréf voru nær öll seld fyrri hluta ársins og eru hlutabréfastöður í þessum félögum nú hverfandi. Almennt gildir auðvitað að fjármögnun bankans annars vegar og ákvarðanir um fjárfestingar hins vegar eru aðskilin viðfangsefni og ráða sínum lögmálum hvort fyrir sig."