*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 17. mars 2018 11:17

Kannast ekki við söluferli

Engin ákvörðun hefur verið tekin um sölu á starfsemi Alvogen í Evrópu. Það gæti þó breyst með auknum umsvifum í Asíu.

Snorri Páll Gunnarsson
Alvogen er talið um 400 milljarða króna virði.
Haraldur Guðjónsson

Forsvarsmenn alþjóðlega lyfjafyrirtækisins Alvogen segja enga ákvörðun hafa verið tekna um sölu á starfsemi félagsins í Evrópu. Það kann þó að breytast með auknum umsvifum Alvogen í Asíu.

Bloomberg fréttaveitan greindi frá því í byrjun mánaðarins að Alvogen væri að skoða mögulega sölu á rekstrareiningum sínum í Mið- og Austur-Evrópu. Verðmiðinn er sagður milljarður Bandaríkjadala eða um 100 milljarðar króna, en fyrirtækið í heild er metið á um 4 milljarða dollara. Samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg á Alvogen að hafa ráðið fjárfestingabanka til að annast söluna og hafið formlegt söluferli.

Áhugi á Kína

„Það hafa engar ákvarðanir verið teknar um hugsanlega sölu á starfsemi okkar í Austur Evrópu. Starfsemin er ekki í söluferli,“ segir Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri hjá Alvogen.

„Stjórn Alvogen hefur hins vegar áhuga á að auka enn frekar umsvif sín í Asíu, sérstaklega í Kína. Verði það niðurstaðan kann að vera að umsvif fyrirtækisins í Evrópu verði endurskoðuð. En það er ekkert ákveðið í þeim efnum,“ segir Halldór, sem segir að þessi mál ættu að skýrast á öðrum ársfjórðungi. Hann bætir því við að starfsemi Alvogen í Mið- og Austur Evrópu gangi sérstaklega vel um þessar mundir og að framtíðarhorfur þar séu góðar.

Alvogen sérhæfir sig í þróun og framleiðslu samheitalyfja, lausasölulyfja og líftæknilyfja. Fyrirtækið starfar í 35 löndum í Mið- Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum og hjá því starfa um 2.800 manns. Höfuðstöðvar Alvogen eru á Íslandi. Yfir 200 manns starfa hjá fyrirtækinu hér á landi, ýmist við þjónustu fyrir markaðssvæði félagsins, þróun og framleiðslu líftæknilyfja hjá systurfélagi Alvogen, Alvotech, og markaðssetningu og skráningu á lyfjum.

Markaðssvæðin fá meiri völd

Í febrúar síðastliðnum tilkynnti Alvogen um skipulagsbreytingar innan samstæðunnar. Breytingarnar miða að því að gera markaðssvæði fyrirtækisins sjálfstæðari. Í tengslum við breytingarnar hefur Alvogen nýlega sagt upp vísindamönnum hér á landi. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Evrópa Alvogen lyfjageiri