Rapparinn Kanye West hefur ýjað að því að hann muni bjóða sig fram í forsetakosningum í Bandaríkjunum eftir fjögur ár. West bauð sig upphaflega fram í yfirstandandi forsetakosningunum en framboð hans hlaut ekki brautargengi að þessu sinni.

Í tísti sem West birti fyrr í dag sést mynd af honum með korti í bakgrunni sem sýnir hvort meirihluti atkvæða hafi fallið í skaut repúblikana eða demókrata. Við myndina skrifar hann svo: WELP KANYE 2024.

West mætti seint inn í kosningabaráttuna á þessu ári, eða í júlí sl. Hann átti þó í basli með að komast inn á lista í forkosningum innan fjölda ríkja Bandaríkjanna af ýmsum ástæðum m.a. lagalegra. Hann náði því eingöngu að komast inn á kjörlista tólf ríkja og en samtals hlaut hann færri en 60 þúsund atkvæði í ríkjunum tólf.

Það verður því fróðlegt að sjá hvort rapparanum skrautlega vegni betur í kosningunum árið 2024.