*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 29. október 2020 11:01

Kapalvæðing semur við Gagnaveituna

Kapalvæðing býður þjónustu um Ljósleiðara Gagnaveita Reykjavíkur í Reykjanesbæ þar sem fyrirtækið starfar.

Ritstjórn
Framkvæmdastjórar fyrirtækjanna tveggja, Börkur Birgisson hjá Kapalvæðingu (t.v) og Erling Freyri Guðmundsson (t.h.) hjá GR.
Aðsend mynd

Fyrirtækið Kapalvæðing og Gagnaveita Reykjavíkur (GR) rituðu í dag undir samkomulag þess efnis að Kapalvæðing leigi aðgang að ljósleiðarakerfi GR um opið net félagsins.

Með samningnum mun Kapalvæðing geta aukið þjónustu og bandvídd við viðskiptavini sína á Reykjanesi yfir ljósleiðaranet GR. Unnið er að tæknilegum undirbúningi og er stefnt að því að þjónusta Kapalvæðingar verði aðgengileg á ljósleiðara GR á næstu vikum.

„Við fögnum þessum samning við GR en með honum munum við geta boðið þjónustu okkar til allra heimila sem ljósleiðarakerfi GR nær til,“ segir Börkur Birgisson, framkvæmdastjóri Kapalvæðingar.

„Þetta er stórt skref fyrir okkur þar sem við höfum ekki nýtt önnur ljósleiðarakerfi en okkar eigin og býður samningurinn okkur upp á nýja möguleika í þjónustu. Við byrjum að taka á móti pöntunum frá og með morgundeginum.“

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur segir sérstaklega spennandi að semja við Kapalvæðingu þar sem fyrirtækið sé uppbyggt í Reykjanesbæ og sé með starfsemi þar.

„Við höfum unnið að því að leggja ljósleiðara í Reykjanesbæ undanfarið og sjáum fram á að ljúka því verkefni á næstu árum og því fögnum við því að fá Kapalvæðingu inn á kerfið okkar,“ segir Erling Freyr.

„Þjónusta Kapalvæðingar verður í kjölfarið í boði á ljósleiðarakerfi GR sem mun ná til um 107 þúsund heimila í lok árs og eykur val neytenda. Samningurinn ýtir undir stefnu stjórnvalda um að Ísland verði áfram framarlega í notkun á ljósleiðara og tökum við fagnandi á móti nýjum þjónustuaðila á Ljósleiðaranum.“