Dr. Jón Daníelsson, dósent í fjármálum við London School of Economics, segir í viðtali við Viðskiptablaðið í dag að kapítalisminn sé hreint ekki dauður og raunar séu frjálsir markaðir forsenda þess að auka hagsæld hér á ný og endurreisa hagkerfið.

Jón hefur sérhæft sig í efnahagskreppum, og því hafa skoðanir hans á íslensku bankakreppunni í samhengi við hremmingar í alþjóðakerfinu vakið verðskuldaða athygli.

Í hádeginu í dag flytur Jón fyrirlestur á vegum hagfræðideildar Háskóla Íslands, þar sem hann mun reifa fjármálakreppuna, orsakir hennar, stöðu mála og líklega framtíðarþróun.

Fyrirlesturinn hefst kl. 12.00 á Háskólatorgi í stofu HT 102.

„Það er ljóst mál að eitt einkenni kapítalismans er að fjármálastofnanir hafa tilhneigingu til þess að spenna sig of mikið, taka of mikla áhættu og búa til bólur. Það er síðan eðli bólanna að þær springa,“ er meðal þess sem Jón segir í viðtalinu og bendir á að þá skaðist fleiri en fjármálastofnanirnar, samfélagið allt sé útsett fyrir áhættunni.

„Þetta er ástæðan fyrir því að við höfum strangt regluverk í kringum banka; til þess að koma í veg fyrir að bankahrun skaði hagkerfið allt.“

Jón segir ekkert óvenjulegt við kreppuna, sem nú dynji yfir.

„Þessi bóla okkar í dag er algerlega sama eðlis og fyrri bólur, þó hún sé stærri í sniðum en þær, og þess vegna er ástæðulaust að ímynda sér að hún bindi enda á kapítalismann frekar en þær. Því þrátt fyrir allt — ef ég má snúa út úr orðum Winstons Churchills um lýðræðið — þá er kapítalisminn versta skipan efnahagslífsins fyrir utan öll hin. Kapítalisminn er ekki dauður.“

Í viðtalinu ræðir Jón einnig peningamálastefnuna, sem hann telur að augljóst hafi verið um langa hríð að gengi ekki upp. Ekki frekar en íslenska bankamódelið.

„Það er athyglisvert að íslenska módelið var kannski nær vogunarsjóðum eða verðbréfasjóðum heldur en fjárfestingarbönkum. Þar fyrir utan voru þeir samtengdir fjárfestingarfélögum, sem aftur voru samtengd einkafyrirtækjum. Það þætti hvergi annars staðar góð latína.“

Jón telur íslensk stjórnvöld hafa gert mörg stórfelld mistök að undanförnu, en þau tvö helstu séu hvernig þau hafi klúðrað samskiptum við bresk stjórnvöld og hafa síðan vanrækt almannatengslahliðina í Bretlandi í kjölfarið.

Jón telur þó ekki allt ónýtt: „Þó almannatengsl íslenska ríkisins hafi verið afleit fram að þessu, þá á Ísland eitt leynivopn á þeim vígvelli og það er Geir H. Haarde forsætisráðherra. Hann kemur mjög vel fram erlendis og vinir mínir og kollegar ytra hafa haft sérstakt orð á því hvað hann er traustvekjandi.“

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .