Joe Biden varaforseti Bandaríkjanna og Paul Ryan varaforsetaefni Repúblíkanaflokksins munu etja kappi í kvöld. Kappræðurnar munu hefjast klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma, og standa þær 90 mínutur. Talsverð spenna er fyrir kappræðunum í Bandaríkjunum, þó svo alla jafna hafi slíkar kappræður lítil áhrif á kannanir.

Gallup í Bandaríkjunum segir að ekkert varaforsetaefni demókrata hafa notið jafn lítils stuðnings síðustu 20 árin og Biden nú meðal skráðra kjósenda, eða 44%. Biden nýtur þó aðeins meiri stuðnings en Ryan mælist með 43% stuðning.

Minni munur á Obama og Romney eftir fyrstu kappræðurnar

Fyrir fyrstu kappræður forsetaefna flokkanna á miðvikudaginn í síðustu viku var Barack Obama forseti með 50% fylgi samkvæmt Gallup meðal skráðra kjósenda, en Mitt Romneyforsetaefni repúblíkana 45%.

Samkvæmt nýjustu könnun Gallup er munur orðin 48%-46% (meðaltal síðustu sjö daga), Obama í vil. Fyrstu þrjá dagana eftir kappræðurnar voru þeir jafnir með 47% en líklegt er að hagfelldar atvinnuleysistölur hafi styrkt Obama aftur.

Hins vegar nýtur Romney aðeins meiri stuðnings meðal líklegra kjósenda, 48% á móti 47% hjá Obama. Gallup segir að venjulega ofmeti kannanir styrk repúblíkana í þessum hluta könnunarinnar.

Fyrir síðustu kappræður töldu margir að Obama ætti sigurinn vísann. Frammistaða hans var hins vegar mikið áfall en aðeins 20% aðspurðra töldu Obama hafa staðið sig betur. Hins vegar töldu 72% Romney hafa staðið sig betur. Meira segja var hlutfallið meðal demókrata 49%-39%, Romney í hag.

Næstu kappræður Obama og  Romney eru á þriðjudaginn í næstu viku.