Tæknifyrirtækið Kaptio ehf. hefur fengið tvo nýja fjárfestingasjóði til liðs við sig, en sjóðirnir Frumtak 2 og Capital A Partners („Cap A“) hafa nú ásamt fyrri fjárfestum, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Kaski, fjárfest í fyrirtækinu fyrir 325 milljónir króna.

Fjármögnuninni er ætlað að gera félaginu kleift að styrkja vöruþróun og sölu á Kaptio Travel lausninni á Bretlandsmarkaði og undirbúa frekari vöxt fyrirtækisins alþjóðlegum markaði. Kapito hefur opnað söluskrifstofu í London en fyrirtækið rekur einnig þróunarskrifstofur í Heidelberg, Þýskalandi og Minsk, Hvíta-Rússlandi.

„Ný fjármögnun kemur til með vera lykillinn að þeim verkefnum sem við áætlum á Bretlandsmarkaði á næstunni.“, sagði Arnar Laufdal, framkvæmdastjóri Kaptio. „Við erum byrjuð að markaðssetja Kaptio Travel hugbúnaðinn okkar þar, sem er sérlausn hönnuð fyrir ferðaþjónustugeirann.“

Í tilkynningu um fjármögnunina segir að aðalvara Kaptio sé Kaptio Travel sem er sérsniðið bókunarkerfi fyrir ferðaþjónustuiðnaðinn. Kaptio Travel er byggt á Salesforce hugbúnaðinum, sem veitir m.a. ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum framúrskarandi gæði og virði hvað varðar hagræðingu og samskipti við viðskiptavini.