Sprotafyrirtækið Kaptio hefur verið valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, afhenti Vaxtarsprotann í morgun í Café Flóru í Grasagarðinum í Laugardal.

Kaptio selur nýja kynslóð bókunarkerfa fyrir ferðaiðnaðinn þar sem upplifun viðskiptavina er látin vera í fyrirrúmi. Viðskiptavinir félagsins eru ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur með starfsstöðvar á Íslandi, Bretlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Kína og Ástralíu. Tekjur Kaptio jukust um 211% milli áranna 2016 og 2017, þær fóru úr 71 milljón króna í 221 milljón króna. Vægi erlendra tekna hefur sífellt orðið meira og í dag eru erlendar tekjur tæplega 85% af heildartekjum. Fjöldi starfsmanna jókst á sama tíma úr 18 í 32. Félagið hóf störf árið 2012 og í janúar 2014 byrjaði fyrsti ferðaskipuleggjandinn að nota fyrstu útgáfuna af hugbúnaðarlausn Kaptio. Stofnendur Kaptio eru þeir Arnar Laufdal Ólafsson og Ragnar Ægir Fjölnisson. Félagið hefur fengið öfluga fjárfesta til liðs við sig en meðal þeirra eru Frumtak Ventures, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Kaskur fjárfestingafélag og Capital A Partners sem er bandarískur fjárfestingasjóður.

Þrjú önnur sprotafyrirtæki, Kerecis, Gangverk og ORF-Líftækni, hlutu einnig viðurkenningar fyrir vöxt í veltu en Kaptio sem sýndi mestan hlutfallslegan vöxt auk þess að uppfylla önnur viðmið dómnefndar fær nafnbótina Vaxtarsproti ársins.

Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Þetta er í 12. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja. Í dómnefnd voru Ari Jónsson fyrir Háskólann í Reykjavík, Lýður Skúli Erlendsson fyrir Rannsóknarmiðstöð Íslands, Erlendur Steinn Guðnason fyrir Samtök sprotafyrirtækja og Sigríður Mogensen fyrir Samtök iðnaðarins.