Kara Connect ehf. hefur lokið 160 milljóna króna fjármögnun með aðkomu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og tveggja sænskra einkafjárfesta. Kara Connect er örugg stafræn vinnustöð sem gerir sérfræðingum í heilbrigðis,- velferðar- og menntageiranum kleift að veita skjólstæðingum þjónustu og straumlínulaga rekstur sinn.

Um er að ræða aðra fjármögnun félagsins. Fyrir ári síðan fjárfesti Crowberry Capital í Kara Connect sem gerði teyminu kleift að einbeita sér að þróun hugbúnaðarins með öryggismál að leiðarljósi. Kara er eini íslenski hugbúnaðurinn fyrir sérfræðinga sem er samþykktur af Landlæknisembættinu þegar litið er til gagnavistunar og fjarfundasamskipta við skjólstæðinga.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins kemur nú inn sem nýr fjárfestir og eignast 10% hlut í félaginu. Allir fyrrum fjárfestar taka einnig þátt og auk þess bætast við nýir sænskir fjárfestar, félögin Poleved Industrial Performance AB og Skogsliden Finance AB.

„Fjármögnun með aðkomu þessara sterku fjárfesta skiptir miklu máli fyrir félagið og gefur frábæru teymi tækifæri til að stækka, sérstaklega í sölu- og markaðsmálum, samhliða vexti í Danmörku. Íslenski markaðurinn hefur tekið hratt við sér og mörg spennandi og framsýn verkefni grundvölluð á kerfi Köru verða brátt sýnileg,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Kara Connect.

Hátt í 700 sérfræðingar nýta sér Köru fyrir bakvinnslu, greiðslur og öryggismál, og samtímis stóreykur Kara aðgengi skjólstæðinga að sérþekkingu þeirra. Sérfræðingar nýta Köru til að skrá og byggja yfirlit um hefðbundna fundi, fjarfundi og spjallfundi. Tugþúsundir fjarfunda hafa farið fram nú þegar og hefur heildarfjöldi notenda meira en tvöfaldast frá áramótum og telur nú yfir 4.300.

„Það hefur verið spennandi að fylgjast með þróun og vexti Köru Connect og við höfum trú á að fyrirtækið eigi eftir að vaxa enn frekar á markaði sem þarfnast þeirra tæknilausna sem félagið býður upp á. Starfsemi, vörur og hugvit Köru Connect eru dæmi um vel heppnaða nýsköpun og með auknu hlutafé fær félagið tækifæri til að sækja fram á nýjum mörkuðum. Við hlökkum til að taka þátt í þeirri vegferð,“ segir Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins sem tekur sæti í stjórn félagsins ásamt Patrick de Muynck fyrir hönd sænsku fjárfestanna.

Patrick telur markaðinn vaxandi: „Um leið og Kara styður við og eykur framlegð sérfræðinga, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum, eykur hugbúnaðurinn aðgengi skjólstæðinga að sérfræðiþjónustu í öruggu umhverfi á þeirra forsendum, auk þess sem ferðalög milli staða minnka talsvert eða hverfa almennt.“

Aðrir í stjórn félagsins eru Halldór Bjarkar Lúðvígsson framkvæmdastjóri SMB Solutions sem er jafnframt formaður stjórnar, Jenný Hrafnsdóttir, meðstofnandi Crowberry Capital, og Ari Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.