Breski auðkýfingurinn Richard Branson, eyjar í Karabíahafinu og Ísland fléttast inn í 100 milljarða Ponzi-svindl með rafmyntina Bitcoin.

Fimm manns, sem stýrðu samtök sem heita Bitclub Network hafa verið ákærðir í Bandaríkjunum eftir rannsókn FBI. Samtökin virðast frá uppahfi hafa verið sett upp með það að markmiði að svíkja fé út úr fólki víða um heim. Tveir hinna ákærðu, Abel og Balaci hafa játað sök í málinu. Tveir eru í gæsluvarðhaldi, þeir Goettsche og Weeks en Medlin, forstjóri samtakanna, bíður framsals til Bandaríkjanna. Hann var handtekinn á flótta í Indónesíu, sakaður um að reyna að greiða stúlkum undir lögaldri fyrir kynlíf.

Sjá einnig: Nýttu Ísland í 100 milljarðar fjársvik

Samtökin sögðu höfuðstöðva samtakanna vera í Reykjavík og heimsóknir til Íslands virðast hafa verið stór þáttur í að sannfæra fjárfesta um ágæti þeirra.

Vildi „nauðga og ræna" eins og „á Íslandi"

Saksóknarar hafa ekki vilja að Goettsche og Weeks verði sleppt úr gæsluvarðhaldi og segja að hætta sé á að þeir nýti sér auð sinn og sambönd erlendis til að flýja land. Þeir eiga báðir einkaflugvélar og hafa reynt að kaupa sér ríkisborgararétt í gegnum fjárfestingar í Karabíahafsríkinu St. Kitts & Nevis. Þá á Goettsche einkaeyju í Mið-Ameríkuríkinu Belís sem hann keypti árið 2017 á um 900 milljónir króna. Í samtali, sem hlut er af gögnum málsins, við ónafngreindan einstakling segir Goettsche að hann vilji gera eyjuna að eigin ríki og sé að leita að íbúum. „Við ætlum að gera eins og gert var á Íslandi. Nauðga og ræna þorp í leit að ljósu hári og bláum augum,“ er haft eftir Goettsche.

Þá ræddu Goettsche og Weeks í tölvupóstsamskiptum um að fá breska auðkýfinginn Richard Branson í heimsókn á eyjuna í Belís. Það lítur út fyrir að einhver samskipti við Branson hafi átt sér stað, þar sem til er mynd af einum hinna ákærðu með Branson sem nýtt var í kynningarefni fyrir Bitclub.

Fékk fjárfesti með sér til Íslands

Weeks segist hafa verið í góðri trú um að raunverulegur námugröftur eftir rafmyntum ætti sér stað. Hann hafi til að mynda tekið þátt í að útvega Bitclub búnað undir gagnaver á Íslandi, í Montana í Bandaríkjunum og í Georgíu. Í nokkrum skilaboðanna kemur til að mynda fram að hann telji að auka þurfi gegnsæi í rekstrinum, svo hægt sé að laða stærri fjárfesta að félaginu. Saksóknarar segja á móti að hann hafi lítið gert í því þegar honum var bent á af öðrum stjórnendum samtakanna að þeir væru ekki að nýta fé frá fjárfestum með þeim hætti sem þeir hefðu auglýst opinberlega.

Meðal gagna málsins er Facebook spjall frá því í ágúst 2015 á milli tveggja hinna ákærðu, Weeks og Abel. Weeks segir Abel að hann sé með fjárfesti sem hann sé langt kominn með að sannfæra um að leggja félaginu til um 20 milljónir dollara, jafnvirði um 2,8 milljarða íslenskra króna að núvirði. Sá aðili hafi hins vegar hnotið um að umsagnir á vef félagsins virtust falsaðar. Myndir sem fylgdu fólki sem sagt var veita jákvæðar umsagnir um félagið virtust teknar af fólk af handahófi á alnetinu. Afla þyrfti raunverulegra umsagna sem líti út fyrir að vera trúverðugar. Í samskiptunum sættast Weeks og Abel á að hann taki umræddan fjárfesti með sér til Íslands.

Branson og Ísland í söluræðu fyrir sjónvarpsþætti

Í gögnunum kemur fram að Weeks og eiginkona hans hafi viljað gera sjónvarpsþátt um ferðalög sín og „Bitcoin byltinguna“ þar sem kvikmyndatökumenn myndu elta þau um heiminn. Í kynningu sem Weeks vann sagðist hann hafa ferðast til yfir 400 borga og yfir 100 landa á tveimur árum. Áhorfendur ættu meðal annars að sjá íbúð Richard Branson í Marrakesh í Marrokkó og á rafmyntaráðstefnu á einkaeyju Branson á Bresku Jómfrúareyjum, sem og neðanjarðar rafmyntanámur á Íslandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .