Viðskiptablaðið hefur tekið saman nokkrar af stærstu erlendu fréttum ársins.

Karadžić dæmdur

Radovan Karadžić var í mars dæmdur í 40 ára fanglesi fyrir þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Það var stríðsglæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna í Haag sem kvað upp dóminn. Karadžić, var leiðtogi Bosníu-Serba, í stríðinu á Balkanskaga, sem geisaði frá 1992 til 1995. Hann er meðal annars talinn bera ábyrgð á fjöldamorði á 8 þúsund körlum og drengum í Srebrenica. Karadžić, sem er 71 árs í dag, fór huldu höfði allt þar til hann var handtekinn í Belgrad í Serbíu árið 2008 og framseldur dómstólnum í Haag. Í júlí áfrýjaði hann dómnum.

Erdogan forseti Tyrklands
Erdogan forseti Tyrklands
© epa (epa)

Ófremdarástand í Tyrklandi

Tyrkland hefur verið í heimsfréttunum allt síðan misheppnuð tilraun til valdaráns var gerð í landinu í júlí. Eftir valdaránstilraunina hefur Recep Tayyip Erdoğan, forseti Tyrklands, hert tökin á landinu og færa má sterk rök fyrir því að þar ríki nú ógnarstjórn. Hann telur að klerkurinn Fethullah Gulen beri ábyrgð á valdaránstilrauninni. Á nokkrum mánuðum hefur Erdoğan látið fangelsa tugþúsundir manna sem hann telur pólitíska andstæðinga sína og sömuleiðis hefur hann rekið tugþúsundir opinberra starfsmanna úr vinnu, undir sömu formerkjum. Erdoğan var forsætisráðherra Tyrklands frá 2003 og þar til 2014 þegar hann tók við embætti forseta.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Pokémon Go sló öll met

Bandaríska fyrirtækið Niantic gaf út nýjan Pokémon-tölvuleik fyrir farsíma í byrjun júlí, Pokémon Go. Óhætt er að segja að leikurinn hafi slegið í gegn því á innan við viku höfðu fleiri hlaðið leiknum niður en forritunum Instagram, Snapchat og Tinder til samans. Í september var búið að hlaða leiknum niður 500 milljón sinnum og í október námu áætlaðar heildartekjur af útgáfunni 67 milljörðum króna. Kostnaður við framleiðslu og þróun nam 3,7 milljörðum.