Hin víðfræga Kardashian fjölskylda hefur eflaust ekki farið framhjá mörgum enda fáum sem líður jafn vel í kastljósinu. Fjölskyldan hefur náð langt með sjónvarpsþáttum sínum og sölu á eigin vörum. Peningar geta seint talist vandamál hjá fjölskyldunni og eru þó vandamál fjölskyldunnar ærin.

Frægðin, fjölskylduerjurnar, ástir og örlög og fjölskyldureksturinn er það sem fólkið heima í stofu getur fylgst ítarlega með í raunveruleikaþáttum um fjölskylduna þar sem fylgst er með lífi þeirra. Það hafa þó fáir skilning á því hversu miklu viðskiptaviti þessu fylgir enda virðist allt sem þau snerta breytast í gull. Það er þó misskilningur að halda því fram að fjölskyldan hafi ekki verið vel fjáð áður en sófadýrin fóru að fylgjast með þeim. En hvenær og hvernig byrjaði þetta allt saman?

Kris Houghton giftist lögfræðingnum RobertKardashian árið 1978 og átti með honum fjögur börn. Kourtney, Kim, Khloé og Rob. Þau skildu síðan árið 1991 og áttu framhjáhöld Kris stóran þátt í þeirri ákvörðun. Robert varð þekktur fyrir að verja O.J. Simpson í vel þekktu morðmáli. Robert og Kris héldu þó áfram vinskap sínum þangað til hann lést árið 2003 úr krabbameini. Greint var frá því í fjölmiðlum að Robert hefði skilið eftir sig 100 milljónir Bandaríkjadala sem fjölskyldan erfði.

Það var þó ekki lognmolla í kringum Kris eftir skilnaðinn því mánuði eftir skilnaðinn giftist hún fyrrum íþróttamanninum Bruce Jenner. Hann vann til gullverðlauna í tugþraut árið 1976 á Ólympíuleikunum í Montréal. Kris og Bruce eignuðust saman stelpurnar Kendall og Kylie en fyrir átti Bruce fjögur börn. Kris, sem oft hefur verið sökuð um að líta á börnin sín sem tekjulind, hefur þó ekkert skort enda eignir Bruce metnar á 100 milljónir Bandaríkjadala. Kris græðir síðan á tá og fingri á velgengni barnanna sinna þar sem hún er umboðsmaður þeirra og fær 10% hlut af tekjum. Nýlega bárust þær fréttir að Bruce og Kris hefðu ákveðið að halda hvort í sína áttina. Árið 2007 var afdrifaríkt hjá Kardashian-fjölskyldunni þegar út lak kynlífsmyndband af Kim og söngvaranum Ray J. Hvort þetta myndband hafi óvart lekið eða ekki varð það til þess að Kardashian-fjölskyldan lenti á milli tannanna á fólki. Fjölskyldan lögsótti Vivid Entertainment sem dreifði myndandinu. Að lokum var samið um að fyrirtækið myndi greiða fjölskyldunni 5 milljónir Bandaríkjadala sem í dag nema rúmum 600 milljónum íslenskra króna. Þetta sama ár hófu þættirnir Keeping up with the Kardashians göngu sína sem áttu eftir að vekja mikla athygli.

Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins, kom út á mánudaginn. Í blaðinu eru auk umfjöllunarinnar um Kardashian-fjölskylduna, viðtal við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra, Ásdísi Kristjánsdóttur hagfræðing, Þorstein Baldur Friðriksson, stofnanda Plain Vanilla, og Hugleik Dagsson svo dæmi séu nefnd. Þá er umfjöllun um veiði, Kardashian-hagkerfinu gerð skil sem og launum helstu knattspyrnumanna. Að auki er margt, margt fleira....