Karen Kjartansdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra hjá Samfylkingunni – jafnaðarmannaflokki Íslands, samkvæmt tilkynningu frá flokknum.

Karen hefur mikla reynslu af störfum við verkefna- og viðburðastjórnun, fjölmiðla og kynningarmál.

Karen lætur af störfum hjá ráðgjafafyrirtækinu ATON, þar sem hún hefur starfað við skipulagða upplýsingamiðlun og almannatengsl. Hún hefur áður starfað sem samskiptastjóri SFS, blaðamaður og pistlahöfundur á DV og einnig sem fréttamaður og varafréttastjóri á Stöð 2. Karen er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur Karen unnið fjölda trúnaðarstarfa fyrir félagasamtök og félög í atvinnulífinu.

„Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að sjá hve stór hópur öflugra og hæfileikaríkra einstaklinga sýndu því áhuga að vinna með okkur að markmiðum Samfylkingarinnar og fyrir hugsjónum um betra samfélag. Á sama tíma og við bjóðum Karenu velkomna til starfa þökkum við öllum umsækjendum kærlega fyrir,” er haft eftir Ingu Björk Bjarnadóttur, formanni framkvæmdarstjórnar Samfylkingarinnar.