Karen Millen er hvorki heimilt að nota vörumerkin Karen né KM hefji hún rekstur tískuvörufyrirtækis á nýjan leik. Slitastjórn heldur utan um hlut í þeim verslunum sem enn standa af fyrrverandi veldi hennar og er henni meinað að nota vörumerkin eða eitthvað í líkingu við þau.

Millen átti ásamt Kevin Stanford, fyrrverandi eiginmanni sínum, fyrirtæki í fataframleiðslu í eigin nafni árið 1981 og opnuðu fyrstu verslunina tveimur árum síðan. Reksturinn vatt upp á sig og í kringum 2001 var veldi þeirra orðið umfangsmikið með hluti í verslunum á borð við Oasis, All Saints, Whistle, House of Fraser og fleirum.

Þau skildu sama ár en hafa starfað saman í viðskiptum í gegnum tíðina.

Þau tengdust jafnframt náið íslensku viðskiptalífi, áttu hluti í Mosaic Fashion með Baugi Group og áttu í viðskiptum við Kaupþing í Lúxemborg. Þegar gömlu bankarnir fóru á hliðina með tilheyrandi afleiðingum til viðbótar við þrot Baugs misstu þau nærri allt sitt í hendur bankanna.

Fyrrverandi skuldaði Kaupþingi milljarða

Starfsmenn á vegum embættis sérstaks saksóknara yfirheyrðu Millen fyrr í mánuðinum vegna rannsóknar á markaðsmisnotkun stjórnenda Kaupþings í aðdraganda hrunsins. Kevin Stanford hefur einmitt sakað fyrrverandi stjórnendur bankans fyrir markaðsmisnotkun þegar þeir lánuðu helstu viðskiptavinum bankans háar fjárhæðir til kaupa á skuldabréfum tengdum skuldabréfaálagi Kaupþings af Deutsche Bank.  Fram kemur í Rannsóknarskýrslu Alþingis að Stanford var annar stærsti lántakandi Kaupþings í Lúxemborg og námu lánveitingar til hans og félaga honum tengdum 63 milljörðum króna þegar Kaupþings féll í október árið 2008. Það jafngilti þá 435,7 milljónum evra. Því til viðbótar veitti bankinn honum tæpa 13 milljarða lán án tryggingar. Stanford átti auk þess hlut í Materia Invest með þeim Magnúsi Ármann og Þorsteini Jónssyni, sem löngum er tengdum við Vífilfell. Karen Millen er ekki tilgreind sem sjálfstæður lántakandi með sama hætti og Kevin Stanford í Rannsóknarskýrslu Alþingis.

Karen Millen segir í ítarlegu viðtali við breska dagblaðið Guardian einkennilegt að föllnu bankarnir eigi meirihluta tískuvöruverslana í Bretlandi. Sjálf ætli hún ekki að una sér hvíldar fyrr en henni hefur tekist að endurheimta fyrirtæki sín.

Þau Millen og Stanford hafa gert skaðabótakröfu gegn Kaupþingi í Lúxemborg upp á 500 milljónir punda, jafnvirði um 100 milljarða íslenskra króna. Því til viðbótar hefur maður hennar fyrrverandi stefnt þrotabúi Kaupþings í Lúxemborg en hann vill m.a. endurheimta fjórðungshlut í verslanakeðjunni Mulberry.