Tískuhönnuðurinn Karen Millen, stofnandi samnefndrar tískuvörukeðju sem íslenska félagið Mosaic Fashions keypti á sínum tíma en runnu við gjaldþrot þess inn i Kaupþing, segir félagið hafa verið stefnulaust síðustu ár.

Segist Karen vera hissa að þrotabú bankans hafi ekki boðið félagið til sölu fyrr, og vonar hún að það lifi af breytingar í verslun því hún vilji skilja eitthvað eftir sig, en töluvert þurfi til að svo verði.„Loka verður verslunum, og breytingar verða að eiga sér stað,“ segir stofnandinn í BBC um keðjuna sem ber nafn hennar en hún seldi árið 2004.

„Hver sá sem kaupir félagið þarf að koma því aftur á sinn stað. Uppbygging félagsins nú er ekki að virka og sama á við um margar lúxuskeðjur sem starfa eftir gömlu módeli sem ekki er að virka.“ Sjálf var Millen lýst gjaldþrota árið 2017, vegna ógreiddra skattgreiðslna sem námu 6 milljónum punda, eða um 951 milljón íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

„Bankarnir urðu gjaldþrota, sem ég hafði fjárfest öllum mínum peningum í, svo ég tapaði öllu og gat ekki greitt skattinn,“ segir Millen sem segist hafa fengið slæmar ráðleggingar, en hún sé hörð af sér. „Ég sé ekki eftir neinu, ég trúi á að einblýna á framtíðina og læra af mistökunum.“

Erfitt ár fyrir fataverslanir

Segir hún stöðuna á tískuvörumarkaðnum þýða að fyrirtæki verði að huga betur að stefnu sinni, en árið hefur verið erfitt fyrir fataverslanir. Þannig hafa bæði Topshop og Debenhams þurft að samþykkja afarkosti lánveitenda sinna, sem og aðrar eins og Select in May, sem hefur farið í gjaldþrotameðferð.

Þrátt fyrir að tölfræði frá Bretlandi bendi til þess að ein af hverjum tíu verslunum séu nú lokaðar í miðbæjum víðast hvar í landinu. Millen segir að lúxusverslunargötur þurfi að finna leiðir til að draga til sín fólk.

„Þetta snýst enn um upplifunina,“ segir Millen. „Fólk er að leita að því að blanda saman því að versla við upplifun og félagslegum athöfnum, staður þar sem þú getur borðað, hitt vini og verslað.“