Ráðgjafarfyrirtækið Athygli hefur ráðið Kareni Kjartansdóttur sem ráðgjafa. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Karen starfaði síðast sem framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar þar sem hún hafði verið frá 2018. Þar á undan starfaði hún  hjá ráðgjafarstofunni Aton auk þess sem  hún var samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) á árunum 2013 til 2017.

Karen hefur einnig talsverða reynslu af fjölmiðlastörfum, sem blaðamaður og pistlahöfundur á DV og á Fréttablaðinu og síðar fréttamaður og varafréttastjóri á Stöð 2.

Karen útskrifaðist með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2016 og er með BA gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur þegar hafið störf.

Athygli er eitt elsta ráðgjafarfyrirtæki á sviði samskipta og almannatengsla á Íslandi, stofnað árið 1989.