Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE), segist algjörlega ósammála Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni þegar kemur að gagnrýni ráðherra Sjálfstæðisflokksins á tillögur og aðgerðir í sóttvörnum í Covid-19 faraldrinum.

„Það var ekki eitt einasta skipti raunverulega sem ríkisstjórnin studdi [Þórólf] ekki. Að ætlast til þess að menn megi ekki hafa meira en eina skoðun innan ríkisstjórnarinnar, það er bara heimskulegt. Við búum í lýðræðissamfélagi. Sá galli sem ég sé stærstan á okkar stjórnmálakerfi í dag er að menn hafa tilhneigingu til að tjá aðeins eina skoðun innan hvers stjórnmálaflokks,“ segir Kári í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

Á þeim rúmu tveimur árum sem sóttvarnaaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins voru í gildi, sérstaklega þegar leið á tímabilið, viðruðu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins reglulega efasemdir um þær aðgerðir sem gripið var til og spurðu hvort þær væru of íþyngjandi.

Þórólfur hefur gagnrýnt þessa ráðherra og telur þá oft hafa tjáð sig óvarlega og ófaglega. Að hans mati bar ríkisstjórninni að sýna samstöðu á svona tímum.

„Það er enginn vandi fyrir mig að taka skref aftur á bak og segja „þetta er rangt Þórólfur“ vegna þess að ríkisstjórnin studdi þig,“ segir Kári. „Það er gott fyrir samfélagið að finna, heyra og sjá að menn leyfa sér að tjá alls konar skoðanir, meira að segja á svona augnablikum.“

Kári hrósaði þó þríeykinu og sagði það hafa staðið sig mjög vel. Þórólfur sé merkilegur maður, ekki bara fyrir starf sitt á síðustu tveimur árum en Kári nefnir sérstaklega framlag hans til bólusetningar á börnum gegn heilahimnubólgu.

„Ég fæ bara tár í augun þegar ég hugsa um Þórólf því mér þykir svo vænt um hann og þetta gekk svo vel. En hann er ekki gallalaus maður og ég er algjörlega á móti þessari skoðun hans að það hafi eitthvað verið að því að menn tjáðu þessa skoðun.“

Kári segir ríkisstjórnina hafa staðið sig mjög vel í faraldrinum. Hún hafi falið sérfræðingum að taka ákvarðanir um sóttvarnaaðgerðir og í ofanálag látið þá koma skilaboðunum áleiðis til þjóðarinnar. „Það gerðist á mjög fáum stöðum.“

Með skemmtilegri tímabilum á ævinni

Kári hrósar íslensku þjóðinni fyrir að sýna aga og fara eftir ráðleggingum og boðum sóttvarnayfirvalda.

„Þrátt fyrir það var fólk í íslensku samfélagi sem mótmælti þessu, að það væri verið að takmarka frelsi fólks. Við sem samfélag leyfðum það. Það var ekkert verið að veitast að þessu fólki sem var gefin rödd af fjölmiðlum landsins. Ég er mjög montinn yfir því vegna þess að við verðum að hafa samfélag sem rúmar alls konar skoðanir, meira að segja á erfiðum tímum eins og þessum. Ég held að við höfum komið mjög vel út úr þessu.“

Hann segir að ÍE hafi átti fullt af skemmtilegum fundum með Þórólfi, Ölmu Möller landlækni og Má Kristjánssyni, yfrirlækni smitsjúkdóma.

„Frá mínum bæjardyrum séð var þetta með skemmtilegri tímabilum á minni ævi. Það var voða gaman að vinna með og kynnast þessu góða fólki og upplifa að þessi þjóð sem hagar sér eins og bölvaðir ribbaldar frá degi til dags geti komið sér saman og verið til fyrirmyndar.“

Aldrei verið eins lasinn

Kári, sem fékk þriðju bólusetninguna í ágúst í fyrra, veiktist af Covid-veirunni í byrjun apríl á þessu ári. Hann segist hafa orðið býsna lasinn í 5-6 daga. „Ég man ekki til þess að hafa orðið svona lasinn áður á ævi minni.“

Honum þótti áhugavert að í kjölfar þriðju bólusetningarinnar mældist mótefnatíter hans gegn veirunni um 13.500, sem Kári tekur fram að sé ekki nákvæm mælieining (algjörlega „arbitrary“). Eftir að hann sýktist af veirunni fór títerinn upp í 56 þúsund. „Það að sýkjast af veirunni virðist hafa verið býsna betra búst heldur en bólusetningin.“

Spurður um hvort Covid-faraldurinn sé búinn, þá segist Kári ekki geta svarað því játandi vegna töluverðs fjölda af smitum. Það geti þó verið eðlilegar dauðateygjur á faraldrinum. Hann bætir einnig við að nú er sá tími ársins þar sem fólk þvælist heimshornanna á milli sem auðveldar veirunni að komast frá einum manni til annars. „Ég held að við séum að borga svolítinn prís fyrir það.“

Aðkoma ÍE „að mörgu leyti kúl“ en vill breytta nálgun

Líkt og þekkt er tók ÍE að sér stóran hluta skimunar og greiningar fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi í Covid. Kári sagði ljóst frá upphafi að heilbrigðiskerfið hefði ekki burði til að sinna þessu verkefni og því hafi ÍE boðið fram hjálparhönd.

Kári hafði lítinn áhuga á að hlusta á umsjónarmenn hlaðvarpsins þakka honum og ÍE fyrir viðbrögð í faraldrinum. Hann líti svo á að þetta hafi verið „all hands on deck“ augnablik þar sem öllum beri skyldi að leggja sitt af mörkum. Það hafi gerst hér á landi og minnist hann á að þegar ÍE lenti í skorti á hvarfefnum við skimanir hafi fyrirtæki úti um allan bæ verið tilbúin að gera allt sem þau gátu til að leysa það vandamál.

Kári segir starfsmenn ÍE í Vatnsmýri vera forréttindafólk að því leyti að þau fengu að taka þátt í aðgerðum fremur en að sitja á hliðarlínunni í angist. Jafnframt hafi þau skrifað nokkrar fræðigreinar um sameindafaraldsfræði (e. molecular epidemiology) sem birtust í virtustu vísindatímaritum heims. „Mér fannst þetta að mörgu leiti kúl.“

Hann kveðst þó óánægður með að íslensk stjórnvöld dragi ekki lærdóm af þessari reynslu og setji á fót farsóttarstofnun til að vera reiðubúin þegar næsti faraldur kemur upp. Ekki sé hægt að reikna með að eitt fyrirtæki á borð við ÍE beri hitann og þungann af aðgerðum í næsta faraldri.

Kári sér fyrir sér að farsóttarstofnunin yrði að hluta til hefðbundin stofnun með tækjabúnaði og starfsmönnum. Í annan stað yrðu þar skipulagðar aðgerðir við að draga sérfræðinga alls staðar að úr samfélaginu til að leggja sitt af mörkum þegar næsti faraldur kemur upp.

Hann rifjar upp þegar verið var að skipuleggja skimun á Keflavíkurflugvelli. Hann hafi þá átt í deilum við lögfræðinga í forsætisráðuneytinu um hvernig standa ætti að þessu.

„Guði sé lof þá eru þetta alveg afskaplega góðir lögfræðingar hjá forsætisráðuneytinu sem ég var að deila við en þeir eru ekki mennirnir til þess að skipuleggja þetta. Við verðum að vita hverjir það eru. Við verðum að kunna mannganginn. Það er enginn vandi að draga þetta saman, að afla gagna til að finna fólk af þeirri gerð sem þú þarft á að halda og finna fyrir þá einhvern stað þar sem það er stjórnstöð sem menna geta komið saman og unnið.“