Framlög ríkisins til rannsókna og þróunar hafa aukist verulega og útflutningstekjur sem byggðar eru á þekkingariðnaði hafa meira en tvöfaldast frá 2013. Nýsköpun er nú orðin ein af máttarstólpum íslensks efnahags, segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnu- og nýsköpunarráðherra. Hún tók undir þau sjónarmið að Ísland geti orðið leiðandi á þessu sviði í framtíðinni ef rétt væri haldið á spöðunum. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli ráðherrans á málþingi sem Alvotech og Háskóli Íslands stóðu fyrir í gær, í samstarfi við Aztiq, Sænsk/íslenska viðskiptaráðið og Vísindagarða Háskóla Íslands. Finna má upptöku af málþinginu hér neðar í fréttinni.

Málþingið er það fyrsta í fyrirlestraröð Alvotech og Háskóla Íslands sem nefnist Framtíð nýsköpunar – Hvernig vísindasamfélagið og atvinnulífið geta skapað verðmæti saman . Fjöldi innlendra og erlendra sérfræðinga tóku til máls á málþinginu og var áherslan að þessu sinni á nýsköpun á sviði líftækni og reynslu af samstarfi háskóla og atvinnulífs á því sviði.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sagði háskólann hafa sett sér það markmið að styrkja frekar við nýsköpun í framtíðinni. Í því skyni gegni Vísindagarðar Háskólans mikilvægu hlutverki. Hann sagði að þekkingariðnaður sem byggður er á nýsköpun og samstarfi fræðasamfélagsins, vísinda, háskóla og atvinnulífs ætti mikið inni og að þar felist tækifæri til að vaxa enn frekar. Samstarf háskólans og Alvotech hafi nú þegar skilað þekkingu til samfélagsins og frekara samstarf muni styrkja enn frekar við uppbyggingu á sviði líftækni hér á landi.

Erfitt að finna íslenska sérfræðinga

Fram kom í máli Róberts Wessman, stofnanda og stjórnarformanns Alvotech að það hafi verið tekið meðvituð ákvörðun árið 2012 um að byggja upp líftæknifyrirtæki hér á landi ári þrátt fyrir að þá hafi verið vitað að það tæki tíu ár og myndi kosta um það bil 100 milljarða króna. Alvotech sé nú tilbúið til að hefja framleiðslu og sölu á líftæknilyfja hliðstæðum um leið og einkaleyfi renni út á næsta ári.

Fyrirtækið sé búið að tryggja sér aðgang að öllum helstu mörkuðum heims og öll lyfin verði framleidd á Íslandi sem þýðir auknar tekjur fyrir þjóðarbúið. Þá hafi verið erfitt að finna íslenska sérfræðinga á sviði líftækni í upphafi en nú sé að verða til þekking hér á landi sem opnar á þann möguleika að önnur fyrirtæki á sviði líftækni vilji starfa hér á landi.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hrósaði Róberti Wessman fyrir að láta hugsjón sína verða að veruleika og sagði þá vinnu sem unnin er í Alvotech skipta miklu máli fyrir íslenskt samfélag. Hann minnti á að Íslensk erfðagreining hafi á þeim 25 árum sem liðin eru frá stofnun þess, skilað gríðarlegri þekkingu til samfélagsins á Íslandi sem og um allan heim. Það sýni að það sé hægt að byggja upp þekkingu og nýjan iðnað á Íslandi þrátt fyrir smæð þjóðarinnar til hagsbóta fyrir heiminn allan.

Langt fjárfestingaferli líftæknifyrirtækja

Lars Lannfelt, prófessor við Uppsalaháskóla sem hefur rannsakað Alzheimer sjúkdóminn í um 20 ár sagði að langan tíma tæki að þróa nýtt líftæknilyf. Rannsóknir hans í erfðafræði tauga hafa beinst að hlutdeild sameinda í orsökum og meðferð á Alzheimers sjúkdómnum en loks hylli undir að nýtt lyftæknilyf komist á markað. Rannsóknir og þróun á því lyfi hafi staðið yfir frá 2003 en búist er við því að það komi á markað á næsta ári.

Eugen Steiner, fjárfestir, tók einnig til máls og sagði að fjármögnun á fyrirtækjum á þessu sviði geti verið erfið. Mikilvægt sé að velja fjárfesta vel, fjárfestingaferlið taki langan tíma og fjárfestar geti verið harðir í horn að taka.