Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, skýtur föstum skotum á núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnir Íslands. Þetta gerir hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Kári segir að Íslendingar sitji uppi með heilbrigðiskerfi sem geti ekki sinnt hluverki sínu og hann telur að fólk sé farið að deyja fyrr en ella út af því einu saman.

„Ef sú kenning mín reynist rétt, þá hafa ákvarðanir um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og að veita frekar fé til þess að reisa og reka Hörpur og Hof og bora í gegnum fjöll valdið dauða fólks. Það vekur ekki spurningana um það hvenær maður drepi mann heldur hvenær ríkisstjórn drepi mann og síðan hvernig maður kalli ríkisstjórn til ábyrgðar fyrir að drepa mann,“ segir Kári í greininni.

Kári segist hafa þungar áhyggjur af því hvort núverandi ríkisstjórn sem sé að „skakklappast af stað“ ætli sér að gera eitthvað til að bæta heilbrigðiskerfið. „Mér virðist eins og hún sé að reyna að komast hjá því vegna þess að það kostar mikla peninga og henni er greinilega mikilvægara að lækka skatta á mönnum eins og mér en að hlúa vel að sjúkum og særðum,“ segir hann.  Hann bætir því við að núverandi ríkisstjórn geti ekki falið sig á bakvið moðreykinn frá hruninu eða að hún viti ekki hvernig ástandið sé.