Kári Hólmar Ragnarsson mun þann 1. janúar nk. hefja störf sem lektor í þjóðarétti við Lagadeild Háskóla Íslands. Greint er frá þessu á facebooksíðu Lagadeildar Háskóla Íslands .

Kári lauk meistaragráðu í lögum frá Háskóla Íslands 2009, LL.M. námi frá lagadeild Harvard háskóla árið 2015 og doktorsgráðu í lögum frá sama skóla vorið 2020. Hann hefur verið aðalkennari í námskeiði í alþjóðlegum mannréttindum á meistarastigi við Lagadeild frá árinu 2017 og kenndi stjórnskipunarrétt í grunnnámi árið 2020. Frá árinu 2007 hefur Kári starfað við lögmennsku á Rétti - Aðalsteinsson & Partners og öðlaðist hann málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi 2009.

Doktorsrit Kára er á sviði þjóðaréttar og samanburðarstjórnskipunarréttar og fjallar um beitingu mannréttindaákvæða í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Fræðigreinar eftir Kára hafa birst í innlendum og erlendum fagtímaritum og hefur hann kynnt rannsóknir sínar á ráðstefnum víða um heim.